„Eru þetta síðustu dagar Samfylkingarinnar? Getur formaðurinn Árni Páll Árnason náð flokknum á flug?“ spyr Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar, á vefsíðu sinni í tilefni af nýrri skoðanakönnun MMR þar sem Samfylkingin mælist með lægra fylgi en flokkurinn hefur mælst með áður í könnunum fyrirtækisins eða 9,3%.
Björgvin segir svörin við spurningunum vera já. „Flokkurinn tekur flugið á ný, enda frjálslynd jafnaðarstefna klassísk pólitík sem hefur aldrei átt meira erindi en nú og jú Árni getur það. Til þess þarf hann auðvitað stuðning innan flokks og utan, og finna að hann hefur þann stuðning.“ Ekkert sé þó sjálfgefið í þeim efnum.
„Samfylkingin getur átt öll bestu árin eftir, en til að það takist að ná flokknum á flug á ný þarf jafnaðarfólk að standa saman, vera stolt af flokknum sínum og berjast fyrir tilveru hans og stöðu. Ekkert er sjálfgefið og gæfuhjólið snýst ekki við nema að við leggjumst öll á eitt.“