Hópar af erlendum ferðamönnum gerðu sig heimakomna á skólalóðinni við Krikaskóla í nótt annars vegar og á bílastæði við Varmá í Mosfellsbæ hins vegar. Einn vegfarandi við Krikaskóla segir ferðamennina meðal annars hafa gert þarfir sínar á bakvið skólann.
Skokkhópurinn Morgunfuglarnir hittist við Krikaskóla á morgnanna og þegar hópurinn kom saman nú í morgun blasti við þeim hópur ferðamanna sem gisti við skólann eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
„Skokkhópurinn mætti í morgun niður í skóla og þá sjáum við fólk sofandi við skólann. Síðan sáum við stelpu hinum meginn við húsið vera að girða upp um sig eftir að hafa gert þarfir sínar bakvið húsið, það er engin salernisaðstaða þarna,“ segir Kristín Einarsdóttir í skokkhópnum í samtali við mbl.is.
„Þau voru ekki einu sinni að gista á grasi, heldur bara á tröppunum fyrir utan ruslakistuna. Það er spurning hvort það séu ekki nægilega merkt tjaldsvæðin eða hvað,“ bætir Kristín við.
Að sögn Ágústu Óladóttur, aðstoðarskólastjóra Krikaskóla, er þetta annað árið í röð sem ferðamenn eru mættir til að gista við skólann daginn eftir að sumarleyfin hefjast. „Í fyrra var reyndar aftakaveður, rigning og bálhvasst. Þeir hafa verið að leita sér skjóls. Nú í nótt var ekkert að veðrinu og er þetta því óskiljanlegt,“ segir Ágústa.
Aðspurð hvort þau munu aðhafast eitthvað ef gestagangurinn heldur áfram segi Ágústu þau munu skoða það. „Þá verður þeim vísað á tjaldsvæði, þetta er alveg óskiljanlegt. Það eina sem mér dettur í hug er að þau viti ekki hvar tjaldsvæðið er.“
Jóna Dís Bragadóttir, íbúi í Mosfellsbæ var á ferðinni um bæinn í morgun þegar hún rakst á ferðamenn sem gistu á bílastæði við Varmá í Mosfellsbæ. Voru ferðamennirnir á þremur litlum rútum og virtust gista undir berum himni á bílastæði. Alls virtist vera um 30 manna hóp að ræða. Að sögn Jónu er tjaldsvæði skammt frá og segir hún þetta með ólíkindum þar sem aðstæðan á tjaldsvæðinu sé góð.