Missti stjórn þegar hann ók yfir skafl

Fólksbifreið sem lenti í hörðum árekstri í janúar í fyrra á Holtavörðuheiði var ekið of hratt miðað við aðstæður og hjólbarðar bifreiðarinnar voru ósamstæðir að framan. Ökumaður bifreiðarinnar og farþegi létust í slysinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa en talið er að bifreiðinni hafi verið ekið á 70-80 km hraða en heimilaður hámarkshraði er 90 km/klst.

Rétt eftir hádegi þann 12. janúar 2014 var fólksbifreið ekið áleiðis norður Vesturlandsveg, auk ökumanns var einn farþegi í framsæti. Vindur var nokkuð hvass, norðaustanátt um 12 m/s og hviður fóru upp undir 20 m/s uppi á Holtavörðuheiði. Snjór var yfir veginum og fokið hafði í skafla sem gengu inn á veginn á nokkrum stöðum.

Á sama tíma var vöruflutningabifreið ekið suður yfir Holtavörðuheiði. Auk ökumanns voru tveir farþegar og verið var að flytja fimm hross sem voru í farmrými bifreiðarinnar.

Við enda vegriðs sem liggur yfir brúna yfir Norðurá við Fornahvamm hafði skafið í skafl sem gekk inn á akrein til norðurs. Samkvæmt vitnum missti ökumaður fólksbifreiðarinnar stjórn á henni þegar hann ók yfir skaflinn. Bifreiðin byrjaði að rása til á veginum og rann því sem næst á hlið framan á vöruflutningabifreiðina. Ökumaður hennar hemlaði og vék til hægri áður en til áreksturs kom. Ummerki voru um að vöruflutningabifreiðinni hafi verið ekið utan í vegriðið. Samkvæmt ökuritaskífu var hraði vörubifreiðarinnar 69 km/klst. rétt fyrir slysið og þegar bifreiðarnar skullu saman var hraðinn kominn niður í um 30 km/klst. Útreikningar á hraða fólksbifreiðarinnar benda til að hraði hennar hafi verið um 70 til 80 km/klst áður en henni var ekið í gegnum skaflinn.

Ökumaður og farþegi fólksbifreiðarinnar voru báðir spenntir í öryggisbelti. Mikil aflögun var inn í fólksrými bifreiðarinnar og lést farþeginn samstundis. Ökumaðurinn var fluttur mikið slasaður á spítala en lést af völdum lífshættulegra fjöláverka sem af slysinu hlutust rúmum tveimur vikum síðar.

Talsverður þyngdarmunur var á bifreiðunum. Vörubifreiðin hefur verið með farmi að lágmarki 6,5 tonn en fólksbifreiðin undir 1,5 tonni. Við áreksturinn kastaðist fólksbifreiðin aftur og stöðvuðust báðar bifreiðarnar á brúnni. Hvorki ökumaður né farþegar í vöruflutningabifreiðinni hlutu meiðsli í slysinu.

Bifreiðarnar voru skoðaðar eftir slysið. Ekkert kom fram við skoðun á vöruflutningabifreiðinni sem skýrir orsök slyssins. Fólksbifreiðin var á löglegum negldum vetrarhjólbörðum en hálfslitnum. Margir naglar hjólbarðans hægra megin að framan voru dottnir úr. Ósamstæðir hjólbarðar geta valdið misræmi í veggripi milli hjóla og getur það átt þátt í að ökumaður missti stjórn á ökutækinu. Vegurinn liggur nokkuð beinn þar sem hann fer yfir brúna, 7 til 8 metra breiður með slitlagi beggja vegna en brúin sjálf er steypt með vegriðum sem ná nokkuð út fyrir enda brúarinnar beggja vegna.

Samkvæmt upplýsingum frá veghaldara var vegurinn skafinn og sandaður um klukkan 8 um morguninn. Samkvæmt lögregluskýrslu var ökumaður vöruflutningabifreiðarinnar ekki undir áhrifum áfengis. Áfengis- eða lyfjarannsókn var ekki gerð á ökumanni fólksbifreiðarinnar en ekki lá grunur um að hann hafi verið undir áhrifum.

Orsakagreining 

Ökumaður fólksbifreiðarinnar missti stjórn á henni þegar hann ók yfir skafl.

Ökumaður fólksbifreiðarinnar ók of hratt miðað við aðstæður.

Ósamstæðir hjólbarðar að framan á fólksbifreiðinni.

Skafið hafði í skafl við vegriðsenda á brú

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka