13 ára fær að kafa í Silfru

Það er ólýsanlega fallegt í Silfru á Þingvöllum.
Það er ólýsanlega fallegt í Silfru á Þingvöllum. Ljósmynd/www.adventures.is

Þrettán ára gömul bresk stúlka hefur fengið heimild til þess að kafa í Silfru á Þingvöllum. Samkvæmt frétt Independent verður þar með fyrsta barnið til þess að kafa á milli flekaskila milli heimsálfa þar sem Ameríku- og Evrópuflekinn mætist í gjánni.

Að vísu virðist hér vera um misskilning að ræða því samkvæmt því sem Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands segir á vef Sportkafarafélagsins. Hann segir að ferðamenn haldi enn að flekaskil Ameríku- og Evrópuflekans séu á Þingvöllum.

„Ég hugsa að ein orsökin sé meðal annars sú að það þyki flott að hafa flekaskilin á Þingvöllum: að geta staðið við Almannagjá og sagst horfa yfir landsvæði sem sé á Ameríkuflekanum,“ segir Páll og bætir því við að í raun og veru hafi aldrei verið talið að flekaskilin væru á Þingvöllum. Hann segir að hins vegar sé hægt að standa á flekaskilum Ameríku og Evrópu víða annars staðar á landinu. „Til dæmis baða menn sig á mótum Ameríku- og Evrópuflekans í Bláa lóninu.

Þingvellir standa á flekaskilum en bara ekki á skilum Ameríku- og Evrópuflekans segir Páll. Páll segir að austan við Þingvelli sé um það bil tíu þúsund ferkílómetra aukafleki sem hlotið hefur nafnið Hreppaflekinn.

„Þingvellir eru á mörkum Ameríkuflekans og Hreppaflekans," segir Páll í samtali við vef Sportkafarafélags Íslands.

Charlotte Burns, sem er frá Biggin Hill í Kent, hefur fengið, samkvæmt frétt Independent, sértakt leyfi frá ríkisstjórn Íslands til þess að kafa í Silfru.

Silfra er einn besti köfunarstaður á Íslandi og af mörgum talinn vera á heimsmælikvarða. Ástæðan er mikið skyggni í tæru grunnvatninu og stórfenglegt umhverfi Silfru.

Samkvæmt reglum þjóðgarðsins er 18 ára aldurslágmark fyrir köfun á Þingvöllum. Charlotte er yngst þeirra sem hafa fengið réttindi sem atvinnukafari frá Professional Association of Diving Instructors. Hún reyndi í átta mánuði að fá heimild fyrir því að kafa í Silfru og loks fékkst leyfið. Hún er afar spennt fyrir því að kafa í Silfru en hún segist hafa byrjað að læra um flekaskilin þegar hún var 11 ára gömul og verið hugfangin af þeim síðan þá.

Margir í fjölskyldu hennar eru kafarar en bróðir hennar Will, sem er 26 ára, var áður sá yngsti til þess að fá atvinnuréttindi er hann var 14 ára gamall. Charlotte byrjaði að kafa um leið og hún varð nægjanlega gömul til þess, það er 10 ára, og hún hefur kafað víða um heim. 

Hún mun kafa í Silfru með Monty Halls, sem er helst þekktur fyrir þætti sína á BBC, BBC Great Escape series.

Gerð verður heimildarmynd um köfun þeirra, segir í frétt Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert