Brutu ekki gegn siðareglum

Skjáskot úr Kastljósþættinum.
Skjáskot úr Kastljósþættinum. Mynd/Skjáskot úr Kastljósi

Jóhannes Kr. Kristjánsson og Sigmar Guðmundsson brutu ekki gegn siðareglum Blaðamannafélag Íslands í umfjöllun sinni um óhefðbundnar lækningar sem sýnd var í Kastljósi hinn 3. mars sl. Það er niðurstaða siðanefndar félagsins sem Jóhannes birti á Facebook-síðu sinni í dag. Kæruna lögðu þau Ólafur Einarsson og Björg Marteinsdóttir fram. 

Kæra í fimm liðum

Alls voru fimm atriði vegna umfjöllunarinnar kærð. Í fyrsta lagi var því haldið fram að ekki hefði verið birt á vef RÚV allt efni úr hinni földu myndavél líkt og ritstjóri þáttarins hafði gefið fyrirheit um. RÚV bar fyrir sig tæknilega örðugleika. Telur siðanefnd sig ekki hafa forsendur til að efast um að tæknilegir örðugleikar hafi komið upp hjá RÚV. Þá var ekki hægt að sjá að klippt hefði verið út efni sem gat haft áhrif á meginefni umfjöllunarinnar.

Í öðru lagi var kærð sú staðhæfing að Ólafur Einarsson væri beint og óbeint að selja „gagnslausan tækjabúnað“ og „efni með loforði um lækningar.“ Siðanefnd segist ekki geta séð að í umfjölluninni sé því haldið fram að kærendur sjálfir lofi lækningu og slíku einungis haldið fram almennt um „snákaolíusölumenn á heimsvísu.“ Sama gildir um meint gagnsleysi viðkomandi tækja og því um almennan gildisdóm að ræða að sögn nefndarinnar. 

Í þriðja lagi var það kært að í umfjölluninni hefði ekki verið tilgreint að á viðkomandi tækjabúnaði væri 60 daga skilaréttur, sem hefði gefið raunsannari mynd af starfsemi kærenda og að ekki væri verið að þvinga gagnslausum tækjabúnaði upp á fólk.

Siðanefnd telur að kærendur hafi haft full tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að við umfjöllunina. Kærandi hafði auk þess tækifæri til að nefna viðkomandi 60 daga skilarétt við væntanlegan kaupanda á kynningarfundinum í myndefninu, sem hann gerði þó ekki. 

Í fjórða lagi var kært að í umfjölluninni væru kærendur sagðir eða vændir um að selja gagnslausan tækjabúnað undir borðið. Telja kærendur að með því hafi Kastljós haldið því fram að tækið hefði ekki CE-vottun. Hins vegar telur nefndin að með orðalaginu undir borðið sé átt við sölu á varningi án leyfis yfirvalda. Í upphafi myndefnisins sjálfs segir einmitt Ólafur að hann megi ekki selja tækið en taki við styrktarupphæð. Telur siðanefnd því orðalagið réttmætt. 

Í síðasta lagi taldi kærandi að umfjöllunin hefði haft í för með sér að saklausir aðilar biðu skaða af, með því að málefni gleraugnaverslunarinnar Sjónarhóls, í eigu kærenda, hefðu að ósekju verið tengd starfsemi kærenda í félaginu Allt hitt ehf. (Heilsuhringurinn).

Kærðu í málinu á hinn bóginn héldu því fram fyrir nefndinni að skýr tenging væri á milli félaganna á heimasíðu Heilsuhringsins og að kærendur sjálfir hefðu opinberlega tengt saman nafn sitt og Sjónarhóls í tengslum við þetta mál.

Tók siðanefndin undir þessi sjónarmið kærðu í málinu og segir: Samtvinnun viðkomandi gleraugnafyrirtækis og annarrar starfsemi kærenda er ekki síst að frumkvæði kærenda sjálfra. Myndefnið ber og með sér að umrætt raftæki er kynnt og falboðið á starfsstöðinni þar sem gleraugnafyrirtækið er.

Sjá frétt mbl.is: Selja dauðvona sjúklingum von

Sjá frétt mbl.is: Lögbannskröfum hafnað

Sjá frétt mbl.is: Vill lögbann á umfjöllum Kastljóss

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert