Örtröð á Keflavíkurflugvelli í sumar

Örtröð í Leifsstöð fyrir nokkrum dögum.
Örtröð í Leifsstöð fyrir nokkrum dögum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll í júlí og ágúst er tvöfalt meiri en sú sem Isavia gerði ráð fyrir. Búast má við biðröðum á flugvellinum á morgnana, síðdegis og um miðnætti fram í september. Þá eru helstu álagsdagar vikunnar fimmtudagar, föstudagar og sunnudagar. Af þeim sökum eru þeir sem ferðast á þessum tímum hvattir til að mæta allt að þremur tímum fyrir brottför.

Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, er unnið hörðum höndum að því að stytta biðraðirnar eins og hægt er. Nú er verið að fjölga öryggisleitarfæriböndum og setja upp ný færibönd sem geta fært bakkana til baka sjálf, svo að starfsmenn í leitarhliðinu geti einbeitt sér að öðrum hlutum. Þá sé verið að færa starfsmenn á milli staða.

Sjá frétt mbl.is: Stækka flugstöðina um 8.700 fermetra

Isavia gerir farþegaspá reglulega til að meta álag á flugvellinum. „Farþegaspáin er gerð eftir flugsætaframboði hverju sinni og þá gerum við ráð fyrir að tiltekið hlutfall flugsæta seljist. Út frá henni gerum við mannaflaspá sem segir til um hversu marga skuli ráða í sumarstörf,“ úrskýrir Guðni. Hins vegar hafi fjölgun farþega orðið mun meiri en spárnar gerðu ráð fyrir.

Aðspurður hvort þessi mikla fjölgun hafi verið fyrirsjáanleg, svarar Guðni: „Við bjuggumst við álagi á þessum tíma en aukningin er tvöfalt meiri en við gerðum ráð fyrir. Því bætist rosalega mikið við.“

Hann segir Isavia hafa séð þessa aukningu fyrir með einhverjum fyrirvara en ekki nógu miklum til þess að geta fjölgað sumarstarfsfólki enda sé auglýst eftir sumarstarfsfólki í byrjun hvers árs. Nú sé verið að fara yfir umsóknir frá því að sumarstörfin voru auglýst síðast og ráða fleiri starfsmenn. „Til að bregðast hraðar við erum við að nýta mannskapinn okkar betur á þessum álagstímum. Svo eru nýju öryggisleitarlínurnar að koma inn þannig að við erum að komast yfir kúfinn.“

Til að bregðast við sumarörtöð í framtíðinni standa umfangsmiklar stækkunarframkvæmdir yfir í Leifsstöð. „Völlurinn er að stækka í allar áttir. Við erum með 5.000 fermetra stækkun til suðurs og erum að stækka komusal til austurs um 700 fermetra. Svo förum við á næstu vikum í gang með 3.000 fermetra stækkun til vesturs. Framtíðarplönin gera einnig ráð fyrir stækkun til norðurs,“ segir Guðni og bætir við að flugstöðin sé fyrir löngu orðin of lítil.

Farþegar eru beðnir um að koma tímanlega fyrir flug.
Farþegar eru beðnir um að koma tímanlega fyrir flug.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka