Skilur áhyggjur af einkunnaverðbólgu

Illugi segir nauðsynlegt að horfa á tilgang einkunnakerfisins.
Illugi segir nauðsynlegt að horfa á tilgang einkunnakerfisins. mbl.is/Árni Sæberg

Menntamálaráðherra telur nýtt einkunnakerfi við útskrift úr grunnskólum henta vel í nútímasamfélagi og veita nemendum, foreldrum og kennurum góða innsýn í hvar nemendur standa á mörgum sviðum. Hann kveðst skilja áhyggjur skólastjórnenda í framhaldsskólum af mögulegri „einkunnaverðbólgu“ og hefur beint því til Menntamálastofnunar að skoða upptöku samræmdra prófa til viðbótar þeim sem nú eru. Slík próf yrðu þó ólík þeim sem fyrir eru.

Áhersla á hæfni, tjáningu og framsögn

„Við þurfum að horfa til þess að við erum að búa grunnskólanemendur í dag undir störf og þátttöku í samfélagi sem við vitum ekki mikið um, annað en að þegar þeir koma út í þetta samfélag verður það orðið mjög ólíkt því sem við þekkjum,“ segir Illugi Gunnarsson.  Þannig segir hann ekki nóg að einblína eingöngu á tiltekin grunnfög þegar nemendum eru gefnar einkunnir, heldur þurfi að einnig að kanna hæfni þeirra heildstætt á ýmsum sviðum.

„Auðvitað þarftu að læra að reikna, lesa o.s.frv. og mjög mikilvægt að við tryggjum að nemendurnir nái þeirri færni sem nauðsynleg er í slíkum greinum. Aftur á móti er líka nauðsynlegt að læra að nota þessa þekkingu, vera skapandi og opinn og kunna að læra.“ Þannig bendir hann t.d. á mikilvægi áherslu á framsögn og tjáningu. 

„Hvers vegna er horft til slíkra þátta? Jú, því það er vitað að á þetta reynir þegar þú ferð út í atvinnulífið,“ segir Illugi. „Þetta er ekki færni sem er beinlínis hægt að gefa einkunn fyrir á forminu „6,25“. Umsögnin leysir þetta hins vegar að einhverju leyti. Við megum nefnilega ekki gleyma til hvers einkunnakerfið er. Einkunnagjöfin er til þess gerð að nemendur, foreldrar og kennarar viti hvar nemandinn er staddur, hvernig náminu miðar áfram.“

Mikilvægt er að meta færni í þáttum á borð við …
Mikilvægt er að meta færni í þáttum á borð við samvinnu, tjáningu og framsögn að mati Illuga. mbl.is/Kristinn

Hvernig virkar kerfið?

Í nýju einkunnakerfi fá útskriftarnemar í 10. bekk einkunnir á bókstafsformi í stað talna. Þá er hverjum nemanda gefin umsögn og sérstakt rafrænt skírteini tekið upp þar sem sjá má gögn um námsárangur nemenda. Svokölluð „lykilhæfni“ er grundvallaratriði í nýrri námskrá samhliða svokölluðum hæfnimiðuðum einkunnum fyrir námsárangur í hinum hefðbundnu greinum. Meðal þess til þessarar hæfni telst er „tjáning og miðlun“, „skapandi og gagnrýnin hugsun“ og „sjálfstæði og samvinna“. Einkunnakerfið er unnið fyrir tíð Illuga í sæti menntamálaráðherra, en hann segist sáttur við það eftir að einkunnabilum var fjölgað.

Frétt mbl.is: Einkunnir verða gefnar í bókstöfum

„Upprunalega átti aðeins að gefa A, B, C og D. Við ákváðum hins vegar að gefið yrði A, B+, B, C+, C og D. Eftir að við tókum þá ákvörðun tel ég að með því að gefa einkunnir svona ásamt umsögnum séum að veita bæði nemandanum og foreldrum góða leiðsögn um hvar viðkomandi stendur í náminu,“ segir Illugi.

„Ef við ætluðum bara að horfa áfram á þessi tilteknu fög þá væri auðvitað alveg eins gott að gefa bara tölustafina. Þetta er hins vegar ný nálgun sem helgast af breyttri námskrá,“ segir hann og bendir jafnframt á að óalgengt sé að allur tölustafakvarðinn sé nýttur í einkunnagjöf hjá grunnskólum. Því ætti breytingin ekki endilega að vera ýkja mikil hvað fjölbreytileika einkunna varðar.

Nemendur fái rétt skilaboð

Hann segir óánægjuraddir skólastjórnenda í tilteknum framhaldsskólum og nemenda með háar einkunnir sem ekki komust inn í draumaskóla sína skiljanlegar. „Auðvitað er gott og mikilvægt að þessi samkeppni inn í framhaldsskólana sé til staðar. Þannig hafa krakkarnir eitthvað að keppa að og vitneskju um að ef þau standa sig vel eiga þau aukna möguleika á að komast þangað sem þau vilja. Aðalatriðið er hins vegar að einkunnakerfið nýtist til að sjá hvar nemendur eru staddir, hvað þarf að bæta o.s.frv.,“ segir Illugi.

Þannig telur hann helsta áhyggjuefnið vera að með stighækkandi einkunnum fái nemendur ekki nógu góða sýn á eigin getu og þekkingu. „Eru krakkarnir að fá rétt skilaboð frá skólunum um hvar þau eru stödd í sínu námi? Mér finnst það vera aðalatriði í málinu.“

Með þetta í huga hefur Illugi beint því til Menntamálastofnunar að kanna samræmi milli einkunna úr samræmdum prófum og grunnskólaeinkunnir, en þannig megi fá vísbendingu um hvort einkunnir séu að hækka óeðlilega mikið. Hins vegar er enn beðið tilskilinna leyfa frá Persónuvernd áður en farið er út í skoðunina.

Hverfaskipting er ekki á borðinu, en Illugi telur það geta …
Hverfaskipting er ekki á borðinu, en Illugi telur það geta verið ákveðinn lið í þroskaferli nemenda að halda í nám sem þeir hafa áhuga á, oft fjarri sínum heimahögum. mbl.is/Þórður

Hverfaskipting ekki í kortunum

Kristinn Jakobsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ, sagði í samtali við mbl.is á dögunum að hverfaskipting hugnaðist sér best við inntöku í framhaldsskóla. „Ég tel mikið æski­legra að sem flest­ir nem­end­ur kom­ist í skóla ná­lægt sínu um­hverfi. Mér finnst við alla­vega þurfa að taka þá umræðu hvort við vilj­um fram­halds­skóla­kerfi þar sem nem­end­ur raðist í skóla ein­göngu eft­ir ein­kunn­um. Í dag er tekið inn eft­ir ein­kunn­um í sum­um skól­um, sem get­ur þýtt að nem­end­ur, sér­stak­lega í Reykja­vík, geta þurft að fara lang­ar leiðir til að kom­ast í skól­ann,“ sagði Kristinn.

Frétt mbl.is: Bókstafirnir leysa ekki vandann

Illugi telur ekki tilefni til að ráðast í hverfaskiptingu af þessu tagi eins og er. „Ég hef skilning á þessu sjónarmiði. Það er hins vegar líka annað sjónarmið uppi sem hefur mikið til síns máls, en það er að krakkar eigi möguleika á að skipta um skólasamfélag og fara í annað byggðalag eða annan skóla en einmitt það sem var í þeirra nærumhverfi. Það held ég að sé líka bara hluti af þroskaferlinu,“ segir Illugi. „Við höfum sagt að við viljum mikinn fjölbreytileika í námi til stúdentsprófs þannig að skólarnir eru ólíkir. Þessi hugsun byggist hins vegar að einhverju leyti á því að þeir verða allir eins, eða a.m.k. svo líkir að þú ferð ekki milli sveitarfélaga til að sækja þér nám í skóla sem hefur einhver sérkenni.“

Þá segir hann málið einnig nátengt spurningunni um hvort færa eigi rekstur framhaldsskóla til sveitarfélaganna. „Ef menn eru að hugsa um svona aðgerðir þurfa að vera til góð svör við öllum þeim stöðum sem komið geta upp, t.d. minni sveitarfélög sem ekki eru fær um að reka framhaldsskóla.“

Íhuga samræmd próf

Samræmd próf hafa ekki verið notuð við inntöku í framhaldsskóla undanfarin ár, þrátt fyrir að vera lögð fyrir nemendur í 10. bekk að hausti. Illugi segir þessa tímasetningu krefjast skoðunar út af fyrir sig og velta megi fyrir sér hvort þau ættu frekar að vera að vori.

„Sagt hefur verið að með hausttímasetningunni sé um að ræða ákveðna stöðutöku sem síðan nýtist nemendum og kennurum í að meta hvað þarf að bæta fram að vori. Aftur á móti þarf að bíða eftir niðurstöðum prófanna og það má velta fyrir sér hversu vel gengur að vinna með þetta. Það eru uppi ýmsar skoðanir um það,“ segir Illugi.

Honum hugnast vel hugmyndin um samræmd próf af einhverju tagi, þó ræða þurfi hvað þau eigi að mæla og hvort og þá hvernig þau nýtist m.a. við innritun í framhaldsskóla. Þau samræmdi próf sem nú eru í skólakerfinu nýtist t.d. ekki við innritun nemenda í framhaldsskóla.  Hann segir hins vegar að án efa gagnist það bæði nemendum vel sem og menntamálayfirvöldum að slíkt mat sé til staðar, enda sé í of miklum mæli litið til t.d. PISA-könnunarinnar í umræðum um gæði skólastarfs, m.a. vegna skorts á samræmdum mælikvarða.

Illugi telur að horfa þurfi til fleiri þátta en frammistöðu …
Illugi telur að horfa þurfi til fleiri þátta en frammistöðu í grunngreinum á borð við stærðfræði og íslensku. mbl.is/Ernir

„Ég hef beint því til menntamálastofnunar að skoða málið, en hef ekki nákvæmlega í höfðinu hvaða mynd yrði á þessu. Hugmyndin er samt að við getum verið með breiðan mælikvarða, sem yrði þó samræmdur, ásamt hefðbundnum samræmdum fagprófum eins og við höfum núna,“ segir Illugi. „PISA er mjög gagnlegt til að mæla ákveðna afmarkaða þætti. Aftur á móti kemur ekki fram mælikvarði á sköpunargleði, vinnubrögð o.s.frv. og er þetta því ekki besti mælikvarðinn til að skoða árangur skólakerfisins í heild.“

Hann bendir á að skólakerfið þurfi að þróast með samfélaginu og skóli sé ekki endilega bara stofnun þar sem nemendur mæta, læra íslensku og stærðfræði og fá síðan einkunn. „Það er mikið vatn runnið til sjávar síðan þetta var hugsunin. Verkefnið er flóknara en áður, rétt eins og þjóðfélagið sem bíður nemendanna við útskrift er flóknara en áður.““

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert