„Byrjið snemma og byrjið oft,“ segir Jane Fleishman um hvenær rétt sé að byrja að ræða við börn um líkama þeirra, kynlíf og samþykki. Fleishman og kona hennar Joan Tabachnick héldu í dag fyrirlestur á vegum Fangelsismálastofnunar um forvarnir gegn kynferðisofbeldi en þær eru báðar sérfræðingar í málaflokknum með áratugalanga reynslu.
Í fyrirlestri sínum sagði Fleishman mikilvægt að ræða við börn um landafræði líkamans. Börn þurfi að vita hvað ólíkir hlutar líkamans heita til þess að geta nefnt þá á nafn, ekki síst komi til þess að þau þurfi að greina frá misnotkun. Sagði hún bandaríska foreldra kenna börnum sínum margvísleg nöfn yfir kynfæri og það er ekki síður satt hér á landi og þá sérstaklega þegar kemur að kynfærum kvenna þar sem mun fleiri víla sér við að nota orðið „píka“ en „typpi“.
„Ein ástæðan fyrir þessu er hversu illsýnileg kynfæri kvenna eru. Karlmenn sjá kynfæri sinn nokkrum sinnum á dag en konur sjá ekki hvað er í gangi í leggöngunum og skilja jafnvel ekki hvar snípurinn er. Önnur ástæðan er sú að karlmenn búa við forréttindi í samfélaginu og við þurfum að vinna gegn því með því að muna að stelpur og konur eru fjarlægari eigin kynfærum og þurfa því að verða kunnugri þeim með tungumálinu og kunnugri með snertingu.“
Í fyrirlestri þeirra Fleishman og Tabachnick kom fram að hegðun foreldra sem virðist saklaus, svo sem óumbeðið kitl eða skipanir um að kyssa ömmu bless afar óæskilega þegar hún brýtur gegn samþykki barnanna. Fleishman segir foreldra oft einfaldlega vilja að börn séu hlýðin en að eins sé mikilvægt að þau upplifi yfirráð yfir eigin líkama.
„Við þurfum að eiga þessi samtöl sem við áttum aldrei við foreldra okkar. Það getur þýtt umræður um hvað sjálfsfróun er en einnig um hvar við viljum ekki láta snerta okkur. Samþykki á rætur sínar í skilningi á eigin líkama og að upplifa að maður megi hafna einhverjum um að snerta mann,“ segir Fleishman.
Í fyrirlestrinum sagði Tabachnick flesta foreldra gleyma hálfri setningunni þegar kemur að því að kenna börnunum sínum um samþykki. Þannig þurfi að segja við börn að rétt eins og að enginn eigi rétt á að snerta þau frekar en þau sjálf vilja eiga þau engan rétt á að snerta aðra.
„Við þurfum að kenna börnunum okkar að vera ábyrg í allri sinni hegðun. Að eiga slík samtöl endurtekið þegar barnið er tveggja, þriggja, fimm og sjö ára býr til tækifæri til að dýpka skilninginn eftir því sem barnið eldist. Ef við getum kennt þessi gildi frá unga aldri og það er ekki þessi gjá milli þess hver getur verið fórnarlamb og hver getur verið gerandi sjáum við alla myndina og gefum börnum tækifæri til að læra að spyrja hvenær og hvort það má snerta aðra.“
Tabachnick segir að fólk hugsi einna helst um gerendur sem ókunnuga. Áður fyrr var það karlmaðurinn í rykfrakkanum við enda leikvallarins sem helst kom upp í hugann og nú er það karlmaður sem býr í kjallara móður sinnar og vafrar um netið. Hún segir okkur skorta betra tungumál yfir gerendur sem og betri viðbrögð við aðgerðum þeirra.
„Það er alltaf einhvern þarna úti en ég held að við þurfum að skilja að fólk sem misnotar [aðra kynferðislega] fellur á samfelldan þráð með ólíkum endum. Einhverjir gætu átt heima í fangelsi en aðrir gætu verið börn sem eru að endurvarpa því ofbeldi sem þau sjálf hafa orðið fyrir á önnur börn og að mála slík börn upp sem gerendur er rangt,“ segir Tbachnick.
Tbachnick segir tölfræði gögn benda til þess að fimm prósent þeirra sem misnota aðra kynferðislega muni ekki hafa gagn af sálfræðimeðferð sem miðar að því að koma í veg fyrir slíka hegðun. Það sé fólkið sem er á þeim enda þráðsins þar sem sadískar tilhneigingar og siðblindni ráði ríkjum.
„Ég trúi því að ef við hefðum náð til þessa fólks þegar það var fimm eða sex ára gamalt hefði verið hægt að leiðrétta þessa hegðun. Og þó svo að fimm prósent þurfa að vera læstir inni og munu ekki breytast þýðir það að hin 95 prósentin sem geta breyst miðað við rannsóknirnar, fá ekki tækifæri til þess.
Tabachnick segir að stefna Bandarískra yfirvalda snúi mikið til að því að stjórna hegðun kynferðisbrotamanna en að það þýði að gerendum sé ekki gefið færi á að verða aftur eðlilegur hluti af samfélaginu.
„Ef við hugsum um alla kynferðisbrotamenn sem skrímsli sjáum við ekki nágranna okkar eða fjölskyldumeðlimi sem eru að hegða sér með óviðeigandi hætti og þá er ólíklegra að við skiptum okkur af. Stefna sem litast af því að gerendur séu skrímsli blindar okkur því gagnvart því sem gæti verið í gangi í fjölskyldunum okkar. Það sem gerir [kynferðisbrotamenn] í raun hættuminni er að þeir séu með atvinnu, daglegan stuðning og að þeir fái hjálp við að fylgjast með hegðun sinni,“ segir hún.
„Það elst enginn upp við þá hugsun að hann vilji verða kynferðisbrotamaður. Þetta er fólk sem þarf hjálp en í okkar samfélagi bjóðum við enga slíka.“