„Ég býst ekki við öðru en að þetta fari til gerðardóms,“ segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, um nýfelldan kjarasamning Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið.
Frétt mbl.is: Hjúkrunarfræðingar felldu samninginn
Hann segir að þegar samningar séu gerðir með fyrirvara á borð við þann sem nú var felldur fari málin í raun aftur á sama reit og þau voru fyrir samningsgerð. Þá stóð til að málið færi í gerðardóm. „Nú er staðan í raun og veru sú sama.“ Hann segir niðurstöðuna ekki koma sér ýkja mikið á óvart í ljósi umræðu síðustu vikna.
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við mbl.is í dag að hjúkrunarfræðingar teldu skipun gerðardómsins ekki standast lög. Þannig yrði líklega látið reyna á réttmæti þess fyrir dómstólum. Gunnar segir eðlilegt að deiluaðilar séu ósammála, en tekur ekki frekari afstöðu til fullyrðinga Ólafs. „Þeir verða þá bara að láta reyna á það.“