Afhenda forsetanum 53.571 undirskrift

Aðstandendur undirskriftasöfnunar sem fór fram á vefsíðunni thjodareign.is munu á mánudaginn afhenda forseta Íslands 53.571 undirskrift, þar sem skorað verður á forsetann að vísa í þjóðaratkvæði lögum sem ráðstafa fiskveiðiauðlindum til lengri tíma en eins árs. Áskorunin er svohljóðandi:

„Við undirrituð skorum á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar.

Áskorunin hefur verið undirrituð af 53.571 Íslendingum á kosningaaldri sem er um 22% áætlaðrar tölu kjósenda á kjörskrá nú. Til undirskriftasöfnunarinnar var stofnað af því tilefni að Alþingi hugðist úthluta heimildum til veiða á einum fiskistofnanna – makríl – til lengri tíma en eins árs án þess að nokkuð ákvæði sé komið í stjórnarskrá sem tryggi eign þjóðarinnar á auðlindinni og tryggt hafi verið að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot hennar.

Þrátt fyrir að frumvarp um makrílveiðar hafi verið kveikjan að því að undirskriftasöfnunin fór af stað þá tekur texti áskorunarinnar til allra fiskistofna. Þó svo að frumvarpið um makrílveiðarnar hafi verið dregið til baka á Alþingi þá stendur áskorunin til forseta Íslands áfram þar til sett hefur verið ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá og þjóðinni tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.

Undirskriftir söfnuðust á tímabilinu 1. maí til 9. júlí 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert