Dagskrá Hinsegin daga kynnt

Stjórn Hinsegin daga í Reykjavík hefur nú kynnt dagskrá hátíðarinnar sem hleypt verður af stokknum þann 4. ágúst. Þema daganna í ár er heilsa og heilbrigði og miðast viðburðirnir við það.

Er með hátíðinni vakin athygli á aðgengi hinsegin fólks að heilbrigðisþjónustu, gæði þeirrar þjónustu sem veitt er og brotalamir sem þar má finna. Þá verður sérstaklega fjallað um þá þætti sem varða HIV, tilfinningaleg, andleg og félagsleg líðan og sú læknisþjónusta sem intersex fólk og trans fólk þarf og þarf ekki.

Með því að leggja áherslu á heilsu og heilbrigði vilja hinsegin dagar stuðla að opinni umræðu um þá staðreynd að hinsegin fólk er fjölbreyttur hópur sem þarf oft á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu að halda sem er sérstaklega sniðin að heilsufarlegum þörfum hópsins, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá stjórninni.

Á dagskrá verða meðal annars fyrirlestrarnir og viðburðirnir BDSM: Hneigð eða áhugamál?, Tölum um HIV: Umræður og HIV-próf, Rjúfum þögnina, Heilbrigðiskerfið í augum trans og intersex fólks og svo að sjálfsögðu gleðigangan sjálf sem verður á laugardeginum þann 8. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert