Starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs, í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins, er til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins.
Sjóðirnir töpuðu rúmum 100 milljörðum á árunum 2008 og 2009 en þrátt fyrir að eiginfjárhlutfall þeirra hafi verið komið undir lögbundið lágmark í mars 2009 héldu þeir starfsleyfi sínu með undanþágum frá Fjármálaeftirlitinu fram á árið 2010, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.
Í kjölfar falls sjóðanna voru tvö ný fjármálafyrirtæki reist á rústum þeirra en þau voru allt frá upphafi fjársvelt og rekstrargrundvöllur þeirra hæpinn. Örlög þeirra urðu þau að SpKef, sem stofnað var upp úr Sparisjóðnum í Keflavík, rann inn í Landsbankann með gríðarlegum tilkostnaði ríkisins en nýi Byr var seldur Íslandsbanka sem greiddi slitastjórn Byrs og íslenska ríkinu rúma 6,5 milljarða fyrir.