Ferðamenn hafa átt það til að ganga erinda sinna í gömlum kirkjugarði í Sandfelli, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í Sandfelli í Öræfum er gamall kirkjugarður en áður stóð þar kirkja. Farið er framhjá kirkjugarði þessum á gönguleiðum að Hvannadalshnjúk sem er hæsti tindur landsins. Töluvert hefur borið á því að erlendir ferðamenn séu að hafast við næturlangt í nálægð við fyrrgreindan kirkjugarð og jafnvel hefur það komið fyrir að ferðalangar hafa gert þarfir sínar við leiðin í kirkjugarðinum. Þetta segir Guðmundur Ögmundsson, aðstoðarþjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs.
Í Skaftafelli sem og í Svínafelli, sem eru í tiltölulegri nálægð við Sandfell, eru tjaldsvæði þar sem ferðamönnum býðst að tjalda gegn lítilli þóknun. Guðmundur segir marga ferðamenn hafa lagt leið sína á tjaldsvæðið í ár líkt og undanfarin ár. Eins og komið hefur fram hér að ofan eru þó ekki allir sem nýta sér þessa aðstöðu og Guðmundur segir að reglulega finnist ferðamenn sem hafa hafst við næturlangt á stöðum þar sem ekki er boðið upp á slíkt. Nú síðast í gærmorgun hafi landverðir komið að tveimur ferðamönnum sofandi í bíl, töluvert utan vegar, á mosavöxnu svæði. Ennfremur hafi landverðir þurft að fara í ferðir að tína upp rusl og eftir atvikum mannasaur eftir ferðamenn.
Guðmundur telur ástæðuna fyrir því að sumir ferðamenn hafist við utan tjaldsvæðis tvíþætta. Annars vegar séu einstaklingar sem sjái tækifæri á að spara sér aurinn en hins vegar séu aðrir sem kjósi friðsemdina við að vera einir í ósnortinni náttúru. Hann segir þó að mögulega þurfi að rannsaka þessa þætti betur og þá sérstaklega hvernig hægt sé að stýra betur umferð ferðamanna. Guðmundur tekur þó fram að hann telji að ábyrgðin liggi ekki eingöngu hjá ferðamönnum heldur þurfi Íslendingar og stjórnvöld að búa til umgjörð sem ferðamenn geti svo farið eftir.
Vatnajökulsþjóðgarður er meðal stærstu þjóðgarða í Evrópu og er tæpir 14.000 ferkílómetrar að stærð sem er um 14% af flatarmáli landsins. Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2008 en hvergi eru jafn tíð eldgos undir jökli og í Vatnajökli.