„Við höfum allir haft yfirdrifið nóg að gera,“ segir Már Guðmundsson, formaður Málarameistarafélagsins. Mikil uppbygging eigi sér stað um allt land í sumar og tímabundin þensla hafi greinilega skapast á markaðinum.
Margir vilja nota sumarið til að mála og standa í ýmis konar framkvæmdum og viðhaldsverkefnum. Hins vegar hefur nokkuð borið á skorti á iðnaðarmönnum til að sinna þessum minni verkum.
Már segir í samtali við mbl.is að nóg hafi verið að gera hjá málarameisturum undanfarnar þrjár til fjórar vikur, sér í lagi í útiverkefnum. „Við áttum svo gríðarlega mikið eftir því frá sumrinu í fyrra og árinu þar á undan, út af lélegu tíðarfari, þannig að þetta er í rauninni uppsafnað hjá okkur,“ nefnir hann.
Hann segist þó ekki vita betur en að tekist hafi að sinna flestum verkum, einnig þeim sem eru minni í sniðum. „Þessir ungu strákar, sem eru kannski ekki með sinn fasta kúnnahóp, eru greinilega að sinna þessu. Það er bara flott.“
Már segist finna fyrir því að þensla sé á markaðinum um þessar mundir, á sumarvertíðinni. Mest sé að gera í júlí og ágúst. Staðan sé því góð núna fyrir iðnaðarmenn, en óvíst er hvernig hún verður í vetur. „Þetta er ákveðinn toppur sem við erum að ganga í gegnum núna.“
Hann hvetur fólk til þess að leita eftir tilboðum í verk tímanlega á vorin. Það sé vænlegast. Þá sé hægt að fá hagstæðara verð og einnig sé þá öruggt að verktakar fáist til að vinna verkið.
Annað vandamál er sá mikli flótti sem varð úr stéttinni til Noregs eftir hrunið 2008. Á bilinu fimmtíu til hundrað málarar fóru út og hafa fáir snúið aftur heim. Þetta sé aðallega spurning um kaupið og gengi íslensku krónunnar gagnvart þeirri norsku geti haft áhrif, að mati Más. „Norska krónan lækkaði í fyrra og þá fóru sumir að hugsa sinn gang, en menn hafa ekki verið að skila sér heim.“
Flóttinn hafi vitanlega verið mikil blóðtaka. „Fyrirtækin eru líka miklu viðkvæmari fyrir þessum sveiflum núna, því þau eru minni, einingarnar eru miklu minni en þær voru.“
Þá sé jafnframt mikill skortur á nýliðun í faginu.