Ekkert BDSM í Gleðigöngunni

Frá Gleðigöngunni 2014
Frá Gleðigöngunni 2014 mbl.is/Júlíus

„BDSM er enn umdeilt. Og fólkið sem stendur fyrir Gleðigöngunni er hrætt við að koma áhorfendum í uppnám,“ segir Magnús Hákonarson, formaður BDSM Íslands í viðtali við vefinn Gay Iceland.

Félagið tekur ekki þátt í Gleðigöngunni í miðborg Reykjavíkur  í ágúst í ár þrátt fyrir að standa fyrir sérstöku erindi undir yfirskriftinni BDSM: Hneigð eða áhuga­mál? á Hinsegin dögum. Félagið sótti um þátttöku í Gleðigöngunni í fyrra en var hafnað.

„Sumir voru mjög særðir þegar okkur var hafnað í fyrra,“ segir Magnús. „Fordómar eru ekki einangraðir við vanilluheim gagnkynhneigðra. Það eru miklir fordómar gegn BDSM í samfélagi hinsegin fólks líka og við gerum okkur grein fyrir því að það tekur tíma að breyta því.“

Magnús segir BDSM vera kynferðislegan minnihlutahóp og að sem slíkur vilji hann vera sýnilegri og vinna gegn fordómum. „Staðalímyndin af því að BDSM hafi eitthvað að gera með svart leður og svipur er úrelt og við viljum koma þeim skilaboðum á framfæri að BDSM snúist um sameiginlegt val, samskipti og traust, það snýst ekki um að neyða neinn til að taka þátt í einhverju sem hann eða hún vill ekki. Að því sögðu þarf ég að játa að þetta með svarta leðrið og svipurnar er mjög svalt og fólk er mikið fyrir þá ímynd, en það er ekki það sem BDSM snýst um.“

Magnús segir meðlimi BDSM Íslands vera um 50 en að um 300 manns séu virkir í senunni. Segir hann að um 10 til 50 prósent þjóðarinnar sé gefin fyrir BDSM, en það fari eftir því skilgreiningu hugtaksins. Segir hann stærstu notendahópana á vefsíðu félagsins innihalda um 1.200 þátttakendur og að 3.000 manns noti síðuna reglulega.

Margir tengja BDSM við svart leður og svipur.
Margir tengja BDSM við svart leður og svipur. mbl.is/AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert