Rísi allar þær byggingar sem fyrirhugaðar eru á Hörpureitnum í miðborg Reykjavíkur verður flatarmál þeirra um 63 þúsund fermetrar. Það jafnast á við Smáralind í fermetrum talið. Tónlistarhúsið, sem reiturinn er kenndur við, er um 30 þúsund fermetrar þannig að fermetrafjöldinn á öllu svæðinu mun slaga hátt í 100 þúsund fermetra. Á slíku svæði myndu fjórar Egilshallir komast fyrir.
„Það er vissulega hætt við að ekki sjáist mikið af Arnarhóli yfir á höfnina, nema þá á milli húsa. Margir munu sakna þess, en sjálfur sakna ég ekki holunnar við Hörpu og bílastæðanna við Tollhúsið,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, um breytta ásýnd svæðisins vegna fyrirhugaðra bygginga á Hörpureitnum, í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag. Þar eiga sem kunnugt er að rísa hótel, íbúðir, verslana- og skrifstofuhúsnæði og höfuðstöðvar Landsbankans.
Hjálmar segir byggingarmagnið vissulega mikið á þessum stað og hann skilji áhyggjur fólks, en búið sé að taka tillit til athugasemda og byggingarmagnið hafi verið minnkað frá því að fyrstu deiliskipulagstillögur lágu fyrir árið 2006. Búið sé að skipta svæðinu upp í fleiri byggingar og göngugata muni liggja á milli þeirra, alveg frá Tryggvagötu, yfir Geirsgötu og að Hörpu.
„Ég hef nokkrar áhyggjur af útsýninu af Arnarhóli þegar Austurhafnarsvæðið er fullbyggt,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem hefur átt sæti í umhverfis- og skipulagsráði.
Júlíus segir byggingarmagnið mikið og ekki hafi verið tekið mið af gömlu miðborginni. Deila megi um hvort tekist hafi að minnka byggingarmassann.