Jón Gnarr ritstjóri hjá 365

Jón Gnarr.
Jón Gnarr. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, hefur verið ráðinn ritstjóri innlendrar dagskrár hjá 365. Hann hefur þegar hafið störf.

„Við gætum ekki verið ánægðari með þessa ráðningu og vitum að Jón Gnarr mun reynast okkur mikill happafengur,“ er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Handbragð Jóns mun sjást í öllum okkar miðlum strax í haust. Ég er sannfærður um að viðskiptavinir okkar og landsmenn allir eiga eftir að njóta þessa í dagskránni okkar. Við hlökkum til að starfa með jafn skapandi og skemmtilegum manni og Jóni Gnarr.“

„Ég er spenntur fyrir að takast á við þetta áhugaverða og krefjandi starf og takast á við þessa áskorun,“ segir Jón Gnarr í tilkynningunni.

„Íslensk dagskrárgerð hefur verið ástríða mín alla tíð. Flest það sem ég hef gert í þeim efnum hef ég gert á miðlum 365; Stöð 2, X-inu og Fréttablaðinu. 365 er að mínu mati einn mest spennandi vinnustaður á Íslandi í dag. Ég þakka stjórnendum traustið og hlakka til að fá að leggja mín lóð á vogarskálarnar með því að móta vandaða innlenda dagskrárgerð til framtíðar með skemmtilegu samstarfsfólki.“ 

Jón mun samhliða starfi ritstjóra innlendrar dagskrár halda áfram með vikulega pistla sína í Fréttablaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert