Sluppu ómeiddir frá gassprengingu

Tveir menn sluppu nær ómeiddir er gassprenging varð fyrir utan sumarbústað við Seljavelli austur af Hvolsvelli laust eftir miðnætti í nótt. Gaskútur sprakk fyrir utan bústaðinn með þeim afleiðingum að bústaðurinn varð alelda og sömuleiðis bíll sem stóð fyrir utan.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Suðurlandi er talið að gashitari hafi bilað og eldur komist í gaskútinn. Það tókst að flytja gaskútinn út úr bústaðnum en fyrir utan sprakk hann með fyrrgreindum afleiðingum. Lögreglan á Suðurlandi telur að bústaðurinn sem og bíllinn hafi gjöreyðilagst í eldinum. 

Lögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurlandi sem mbl.is ræddi við í morgun segir að mennina tvo sem voru í bústaðnum hafi ekki sakað.

Slökkvilið frá Hvolsvelli var sent á staðinn. Búið var að slökkva eldinn um kl. 2 í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert