Fimm JAS-39 Gripen-orrustuþotur tékkneska hersins, sem gæta munu íslenskrar lofthelgi til ágústloka, eru lagðar af stað hingað til lands að því er fram kemur hjá Prague Post. Með þeim í för verður ítölsk eldsneytisbirgðavél, sem mun sjá orrustuþotunum fyrir eldsneyti á flugi.
Samkvæmt Prague Post mun hluti hópsins koma til landsins á miðvikudag og hluti á föstudag. Að sögn talsmanns hersins er ætlað að orrustuþoturnar snúi aftur 26. ágúst og restin af mannaflanum 29. ágúst.
Í frétt Prague Post kemur fram að tékknesku flughermennirnir hlaupi í skarðið fyrir kanadíska kollega sína, sem sinni nú aðgerðum gegn Ríki íslam. Fjórar vélar munu gæta lofthelgi Íslands, en ein verður í viðbragðsstöðu.
Tékknesku þoturnar munu hefja eftirlit 29. júlí.
Prague Post segir frá því í frétt sinni að Ísland búi ekki að her, en að rússneski herinn hafi í auknum mæli gert vart við sig úti fyrir lofthelgi landsins.