Mjólkurbúið KÚ ætlar að kæra það sem það kallar „óeðlilega“ hækkun Mjólkursamsölunnar á verði ógerilsneyddrar hrámjólkur til Samkeppniseftirlitsins. Smærri úrvinnsluaðilar þurfi að greiða MS „samkeppnisskatt“ ofan á mjólkurverð og verði fyrir fjárhagslegu tjóni.
Verðlagsnefnd búvara hefur tekið samhljóða ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum, sem nefndin verðleggur, hækki 1. ágúst næstkomandi um 3,58%, nema verð á smjöri, sem hækkar um 11,6%.
Þessu mótmælir KÚ harðlega í yfirlýsingu. Hækkun upp á tæp 4% eigi sér stað á sama tíma og afurðarverði til bænda hækki aðeins um 1,47 krónur eða 1,77%. Smærri úrvinnsluaðilar þurfi því að greiða 17,44% samkeppniskatt til MS ofan á mjólkurverð.
„Þessari hækkun er stefnt gegn samkeppni á mjólkurvörumarkaði og mun valda smærri fyrirtækjum sem starfa á þessum markaði fjárhagslegu tjóni. Ákvörðun er með öllu óskiljanleg þar sem mjólkurverð hækkar aðeins um 1,47 krónur eða 1,77% til bænda og engin hækkun hefur orðið á flutningskostnaði sem er eftir sem áður 3,5 krónur á hvern ltr. Þannig er samkeppnisaðilum MS ætlað að greiða niður rekstur MS enn frekar með tilheyrandi skaða fyrir neytendur. Samkeppnisaðilar MS greiða því 17,44% hærra hráefnisverð en MS sem er ólíðandi,“ segir í yfirlýsingunni.
KÚ hefur því ákveðið að kæra þessa ákvörðun verðlagsnefndar Mjólkursamsölunnar til Samkeppniseftirlitsins þar sem hún gangi freklega gegn samkeppni á mjólkurvörumarkaði og sé brot á samkeppnislögum sem varði markaðsmisnotkun.
Fyrri frétt mbl.is: Lágmarksverð á mjólk hækkar