Það virðist stöðugt vera að færast í aukana að fólk kaupi hreint íslenskt vatn í búðum. Ferðamenn kaupa vatnið en Íslendingar virðast einnig grípa með sér flösku af kranavatni þegar það stekkur inn í búð.
„Við seljum mjög mikið af vatni hjá okkur, venjulegu kranavatni,“ segir Guðmundur Hafsteinsson, verslunarstjóri 10-11 í Austurstræti, í samtali við mbl.is. Hann segir ferðamennina duglega að kaupa vatnið en þeir séu ekki einir um það.
„Mér finnst ásókn Íslendinga stöðugt að aukast. Það er svolítið sérstakt en ég tek eftir því að fleiri og fleiri kippa einni flösku af vatni með sér.“ Blaðamaður tekur undir með Guðmundi að það sé sérstakt að vita til þess að Íslendingar, og útlendingar, kaupi kranavatn.
Aðspurður telur Guðmundur að ferðamenn viti af því að vatnið í krananum sé eins gott og það verður.
„Þeir virðast alveg vita það og við hér bendum þeim oft á það. Samt virðast margir einhverra hluta vegna grípa flösku með sér.“ Hann bætir við að þetta gæti að einhverju leyti snúist um þægindi. „Slatti af fólki fer í rútuferðir úr miðbænum og vill taka vatn með sér. Þá er þægilegt að kippa einni flösku með á leið í rútuna.“