Fyrirbænir seldar á Hópkaupum

Þjónustan er auglýst með 40% afslætti á Hópkaupum.
Þjónustan er auglýst með 40% afslætti á Hópkaupum. Skjáskot af Hópkaupum

Tæplega fimm þúsund krónur kostar að láta biðja fyrir sér samkvæmt tilboði sem auglýst er á vefnum Hópkaupum. Þjónustan er nefnd fjarheilun en María Jónasdóttir, sem falbýður hana, titlar sig „heilara“ og „meðferðaraðila“.

Í lýsingu á tilboðinu kemur fram að viðskiptavinir þurfi að gefa upp nafn þess sem heila á og eitt kennileiti hans t.d. fæðingardag, fæðingarmánuð og fæðingarár, aldur, búsetu, síma eða hvað það sem skilgreini viðkomandi frá öðrum.

„Einnig er gott að fá uppgefið heilunar-og/eða bænaefnið ef vinna á með eitthvað sérstakt en annars er farið í gegnum almenna heilun & fyrirbæn,“ segir þar.

María segist í lýsingunni vera með diplóma í „þerapíufræðum“ auk þess að hafa hlotið þjálfun í því sem nefnist NLP. Eftir því sem mbl.is kemst næst stendur það fyrir taugamálvísindalega forritun (e. neuro-linguistic programming) sem hefur verið lýst sem falsvísindum.

„Í fjarheilunum mínum og fyrirbænum sest ég niður og tengi mig við almættið og ber upp erindið sem getur verið almenn fyrirbæn, heilun eða sérbeiðnir. Allir aldurshópar geta þegið fjarheilun og fyrirbænir. Ég hef mikið unnið við að auka orkustig einstaklingsins og andlega vellíðan með því að fjarlægja kvíða og ótta og auka þar með hæfni hans til að takast á við lífið. Einnig hafa líkamlegir kvillar oft stórminnkað og jafnvel alveg horfið,“ segir um meðferðina á Hópkaupum.

Þjónustan kostar 4.800 krónur og er það með 40% afslætti samkvæmt tilboðinu. Yfirleitt kosti þjónustan 8.000 krónur. Á vefsíðunni allir.is þar sem þjónustan Maríu er einnig auglýst er „ráðgefandi greiðsla“ sögð vera 10.000 krónur. Hún sé þó einnig í formi frjálsra framlaga frá notendum eftir meðferðirnar. Eftirfylgni er sögð innifalin í verðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert