Biðja æðri máttarvöld um betra veður

Tónlistarhátíðin Bræðslan fer fram í fögrum faðmi Borgarfjarðar eystri.
Tónlistarhátíðin Bræðslan fer fram í fögrum faðmi Borgarfjarðar eystri. Ljósmynd/Steinunn Ásmundsdóttir

Fjöldi hátíða verður haldinn um helgina líkt og um flestar aðrar helgar sumarsins. Meðal þeirra helstu má nefna Bræðsluna á Borgarfirði eystri, Mærudaga á Húsavík, Franska daga á Fáskrúðsfirði og Reykhóladaga í Reykhólahreppi.

„Þetta eru ekki alveg eðlilegar aðstæður fyrir hina hefðbundnu Bræðslu, þar sem það er náttúrlega ekki ennþá komið sumar,“ segir Magni Ásgeirsson einn skipuleggjenda Bræðslunnar. „Það er verið að tala um að þetta sé versta sumarið hérna síðan árið 1970. Veðrið er ekki búið að vera upp og ofan, heldur bara ofan.“

Hann bætir hins vegar við að í Borgfirðingar hafi engar áhyggjur. „Við látum það ekkert á okkur fá. Það er ekki eins og Íslendingar eigi ekki lopapeysur. Tónleikarnir eru líka inni þannig það er ekki eins og það sé eitthvað vandamál,“ segir Magni léttur í bragði. 

„Höfum leitað langt út fyrir valdsvið okkar“

Samt sem áður hafa aðstandendur Bræðslunnar brugðið á það ráð að leita til æðri máttarvalda. „Við höfum biðlað til hinna ýmsu trúarvætta og erum búin að leggja inn pöntun hjá allsherjargoðanum. Við höfum þannig leitað langt út fyrir valdsvið okkar til að reyna að koma veðrinu í sama horf og verið hefur síðustu ár,“ segir Magni, en hátíðargestir hafa notið sólar og lognviðris alla tíð frá því hún var fyrst haldin árið 2005.

„Síðustu ár hafa verið í kringum þrjú þúsund manns í bænum, sem er þrjátíuföld íbúatala fjarðarins. Við búumst allt eins við svipuðum fjölda.“

Mærudeginum verður fagnað á laugardaginn á Húsavík.
Mærudeginum verður fagnað á laugardaginn á Húsavík. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Mærudagar verða aðeins einn Mærudagur

Þessa síðustu helgi í júlí hafa Mærudagar jafnan verið haldnir hátíðlegir á Húsavík. Nú verður hins vegar breyting þar á, þar sem Mærudagar verða styttir í Mærudag, sem haldinn verður á laugardaginn.

Heiðar Hrafn Halldórsson, forstöðumaður Húsavíkurstofu, sagði í samtali við Morgunblaðið fyrr í sumar að stór hluti bæjarbúa hafi verið óánægður með stærð hátíðarinnar. „Þetta hefur verið með mjög svipuðu sniði lengi og mér fannst ég vera farinn að skynja ákveðna deyfð, fólk var farið að hafa minni áhuga á þessu,“ segir Heiðar, en rétt er að taka fram að þótt hátíðin standi formlega bara yfir á laugardaginn verður nóg um að vera á svæðinu alla helgina.

Meðal atriða á Mærudagskránni má nefna 3,3 eða 8,3 kílómetra Botnsvatnshlaup, hrútasýningu, tónleika með Eyjólf Kristjánssyni, og söng karlakórsins Hreims. Klukkan 14 á laugardaginn verður haldið svokallað „Lord of the game of Narnia thrones urban gaming tourist fight club experience“, þar sem fjöldi fólks í búningum leikur sér með skyr á götum Húsavíkurbæjar, að því er segir í dagskránni.

Franskir dagar á Fáskrúðsfirði hafa verið haldnir árlega síðan árið …
Franskir dagar á Fáskrúðsfirði hafa verið haldnir árlega síðan árið 1996. mbl.is/Albert Kemp

Sirkus og tónlist á Frönskum dögum

Á Fáskrúðsfirði hafa Franskir dagar verið haldnir árlega síðan árið 1996 og eru þeir iðulega haldnir helgina fyrir Verslunarmannahelgi. Eru þeir til þess gerðir að halda á lofti minningunni um veru Frakka í firðinum fyrr á öldum og tengsl þeirra við staðinn.

Að sögn aðstandenda hefur hátíðin unnið sér sess sem árleg bæjarhátíð Fáskrúðsfjarðar, þar sem brottfluttir sækja fjörðinn heim, fermingarbarnamót eru haldin og árgangar mæla sér mót. Þá hafa fulltrúar franska vinabæjarins Gravelines oft nýtt tækifærið til heimsóknar og tekið þátt í hátíðinni.

Franskir dagar hófst formlega í gær með göngu upp með Gilsá. Í ár gegnir Sirkus Íslands veigamiklu hlutverki í dagskrá hátíðarinnar en sirkusinn skemmtir gestum og íbúum með fjölda sýninga á meðan hátíðinni stendur. Þá ber að nefna tónleika með Jónasi Sigurðssyni í kvöld, Bjartmari og Bergrisunum á morgun og loks dansleik Rokkabillýbandsins og Matta Matt á laugardaginn.

Í Reykhólahreppi eru Reykhóladagar haldnir. Meðal atriða á dagskránni er …
Í Reykhólahreppi eru Reykhóladagar haldnir. Meðal atriða á dagskránni er landbúnaðarsprell. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Kassabílarall og kökuhlaðborð í Króksfjarðarnesi

Í Reykhólahreppi eru haldnir Reykhóladagar og hefjast þeir í dag. Meðal atriða á dagskrá hátíðarinnar má nefna harmonikuball, tónleika með hljómsveitinni Spöðum, heimboð í súpu, sundlaugarfjör, spurningakeppni, landbúnaðarsprell og grill í Hvanngarðabrekku.

Á laugardeginum fer fram hlaup sem kennt er við hátíðina þar sem þátttakendur geta valið á milli 15, 8, 5, og 2,5 kílómetra vegalengda. Um kvöldið fer svo fram stórdansleikur með Sóldögg í íþróttahúsi hreppsins. Hátíðinni lýkur á sunnudag með kassabílaralli og kökuhlaðborði í Króksfjarðarnesi.

Druslugangan verður farin í fjórða sinn á laugardaginn og hefst …
Druslugangan verður farin í fjórða sinn á laugardaginn og hefst hún klukkan 14 við Hallgrímskirkju. mbl.is/Árni Sæberg

Druslur ganga niður Skólavörðustíg

Í Reykjavík verður Druslugangan haldin á laugardaginn og hefst hún klukkan 14 við Hallgrímskirkju. Þaðan verður gengið niður Skólavörðustíg og Bankastræti og endar gangan á Austurvelli, þar sem við taka fundarhöld og tónleikar.

Að sögn aðstandenda göngunnar er hún orðin að föstum punkti í íslensku samfélagi þar sem samfélagið rís upp gegn kynferðisofbeldi og stendur með þolendum gegn gerendum. Leggur hún þannig höfuðáherslu á að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum yfir á gerendur.

Gangan var farin í fyrsta skipti árið 2011 að erlendri fyrirmynd, en upphaf hennar má rekja til ummæla lögreglustjórans í Toronto um ábyrgð kvenna á nauðgunum sem þær verða fyrir, vegna frjálslegs klæðaburðar og stuttra pilsa.

Sumar og sól. Sólin gæti farið í felur yfir helgina …
Sumar og sól. Sólin gæti farið í felur yfir helgina en spáð er skúrum í öllum landshlutum. mbl.is/Styrmir Kári

Svipað veður á landinu öllu

Ferðalangar gætu viljað klæðast regnheldum fötum hvar sem þeir verða staddir á landinu, sé miðað við veðurvef mbl.is. „Um helgina ætti að verða svipað veður á öllu landinu. Við spáum skúrum í öllum landshlutum en það verður áfram tiltölulega milt veður eins og hefur verið,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hún bætir við að viðra muni ágætlega til ferða. „Það verður mikið um skúrir á vestanverðu landinu á sunnudaginn en að sama skapi bjart fyrri hluta dagsins.“

Elín segir að mögulega muni rofa til á Austurlandi. „Það er möguleiki að þar verði ekki alveg samfelld skýjahula yfir austanverðu landinu eins og hefur verið undanfarnar vikur. Það gæti því rofað til fyrir austan um og eftir helgina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert