„Komist inn ef þið farið í sleik“

Stemningin var frábær á Druslupeppinu í gær.
Stemningin var frábær á Druslupeppinu í gær.

„Við fréttum í lok kvöldsins að dyravörðurinn hafi verið óviðeigandi við einhverjar stelpur. Við létum starfsfólkið á staðnum vita og viljum koma því á framfæri hvað við erum ótrúlega þakklát hvernig Húrra brást við. Það var ekki sjálfgefið að þau tækli málin almennilega,“ segir Helga Lind Mar, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar, við mbl.is.

Druslupepp var haldið á skemmtistaðnum Húrra í gær en það er eins konar upphitun fyrir gönguna sem fer fram á laugardag. Dyravörður á staðnum hafði uppi kynferðslegt háttalag við konur í röðinni, snerti gesti á óviðeigandi hátt og sagðist geta hleypt stelpum fram fyrir röðina ef þær færu í sleik. Eigandi Húrra hefur harmað atvikið og sagt að umræddur dyravörður fái aldrei aftur að vinna á staðnum.

„Röðin var ótrúlega löng, náði á tímabili að Hlöllabátum og það var því mikil pressa að komast inn og fólk hlakkaði mikið til þess. Dyravörðurinn bauð stelpum sem færu í sleik við hvor aðra að fara fram fyrir röðina og hann myndi hleypa þeim inn. Við sáum nokkrar stelpur segja frá því á twitter í dag að hann hafi verið að snerta þær óviðeigandi og verið almennt viðbjóðslegur.“

Skemmtistaðurinn Húrra brást vel við þegar þau voru látin vita af þessari ósmekklegu hegðun. „Eigandinn hringdi í okkur í morgun og var miður sín yfir þessu. Hann hafði samband við verktakafyrirtækið sem hann leigir dyraverði af og sagði að þessi dyravörður myndi aldrei aftur vinna á Húrra. Maður finnur fyrir í kjölfar aukinnar umræðu er fólk að taka sterkari afstöðu gegn kynferðisofbeldi og að það líðist ekki. Þetta voru hárrétt viðbrögð og sýnir að við erum að komast á betri stað,“ segir Helga.

Dyravörðurinn lét ekki duga að biðja stelpur um að fara í sleik eða snerta þær. „Við heyrðum líka að hann hafi talað um konur inni á staðnum sem femínistatussur. Þarna er hann umkringdur skilaboðum sem ættu að segja honum að þetta sé óviðeigandi og hann áttar sig ekki á því, eða það hefur ekki áhrif á hann.“

Að öðru leyti fór þetta viðburðurinn fram úr björtustu vonum að sögn Helgu. „Okkur leið smá eins og við værum með venue á Airwaves, röðin var svakaleg. Það var fallegt að það var enginn að komast fram fyrir í röð þrátt fyrir að vera þekkt andlit. Allir voru jafnir.“

Skipuleggjendurnir finna fyrir miklum stuðningi vegna göngunnar á laugardag. „Það eru allir tilbúnir að sameinast gegn kynferðisofbeldi. Takmarkið okkar var að fá 20 þúsund manns í gönguna og miðað við stuðninginn síðustu daga þá búumst við því að það takist. Núna er ekki spáð rigningu, eins og spáin sagði í fyrstu, þannig að við hlökkum mikið til,“ segir Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka