Síðasta HIV-faraldri lauk 2012

Í bílnum Frú Ragnheiði hefur hreinum sprautunálum verið dreift til …
Í bílnum Frú Ragnheiði hefur hreinum sprautunálum verið dreift til sprautufíkla. HIV-faraldur var á meðal sprautufíkla árin 2010 til 2012. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á tímabilinu 1983 til 2012 greindust 313 einstaklingar með HIV hér á landi. Mikill meirihluti þeirra voru karlar, eða 222, og konur sem greindust með sjúkdóminn því 91 talsins.

Þetta kemur fram í rannsókn sem unnin var hér á landi og birt í læknatímaritinu Journal of AIDS & Clinical Research og mbl.is greindi frá í mars.

Karlmaður af erlendum uppruna var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst fyrr í dag en það er gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna, síbrota og hættusjónarmiða. Maðurinn er grunaður um að hafa smitað konur af HIV og snýr rannsókn m.a. að því hvort fleiri konur kunni að hafa verið í samneyti við manninn og hvort að þær séu smitaðar.

Frétt mbl.is: Úrskurðaður í gæsluvarðhald

Dánartíðni hefur dregist mikið saman

Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir og einn höfunda rannsóknarinnar, sagði á sínum tíma við mbl.is að gríðarlega margt hafi breyst í meðferð við HIV; bæði lyf og upplýsingar um stöðu sjúklinga, sem geri læknum kleift að taka markvissari ákvarðanir. Í rannsókninni kom fram að dánartíðni vegna sjúkdómsins hafi dregist saman um a.m.k. 70 prósent á því tæplega 30 ára tímabili sem var skoðað.

Sérfræðingar í smitsjúkdómum eru mun bjartsýnni á horfur HIV smitaðra nú en áður, sagði Magnús í samtali við mbl.is. Ljóst sé að með því að meðhöndla fólk fyrr sé verið að fyrirbyggja heilsutap þess og jafnframt draga úr smithættu í þjóðfélaginu í heild.

HIV faraldur síðast árin 2010 til 2012

Ekki hefur komið upp HIV-faraldur á Íslandi síðan 2012, þegar hópsýking greindist með sprautufíkla sem olli miklum áhyggjum á árunum 2010 til 2012. Magnús sagði á sínum tíma við mbl.is að á síðustu árum hafi fáir fíklar verið greindir með HIV, svo allt benti til þess að sjúkdómurinn hafi náð hámarki á árunum 2010 til 2012 þegar það varð sprenging í nýgreiningum.

Árið 2014 greindust 10 með HIV smit hérlendis, og þar af voru fjögur ný smit. Hvorki lögregla né sóttvarnarlæknir hafa viljað gefa upp hversu margar konur séu smitaðar af HIV vegna einstaklingsins sem nú situr í gæsluvarðhaldi, og eins hafa ekki fengist upplýsingar um hvernig talið sé að sjúkdómurinn hafi smitast. Þá hefur mbl.is ekki fengið svör við því hvort talið sé að sjúkdómurinn hafi smitast áfram frá konunum. 

Misjafnt er hvaða lyf eru notuð til að halda sjúkdómnum í skefjum en að sögn Magnúsar er enn beðið eftir lækningu sjúkdómsins. Biðin eftir bóluefni sé orðin löng en unnið er að þróun slíks efnis.

Magnús Gottfreðsson, læknir.
Magnús Gottfreðsson, læknir. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert