Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Hjalti Vigfússon, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar, hafa átt í orðaskiptum á Facebook í kvöld eftir að sá síðarnefndi tísti þeirri ósk sinni að lögreglan tæki upp þá vinnureglu að rannsaka kynferðisbrot strax við tilkynningu óháð því hvort þolandinn treysti sér til að kæra. Greindi Hjalti frá samskiptum sínum við lögreglumann sem áttu sér stað þegar hann fylgdi vinkonu sinni á neyðarmóttöku en hún hafði orðið fyrir hópnauðgun.
Eftir bestu vitneskju mbl.is er þetta í fyrsta skipti sem opinber stofnun á Íslandi á í svokölluðum twitter-erjum, en það er það kallað þegar notendur samfélagsmiðilsins eiga skoðanaskipti á miðlinum.
„Ég vil að ríkisvaldið og @logreglan taki ábyrgð af þolendum við kæru kynferðisbrota,“ skrifaði Hjalti og merkti færsluna myllumerkinu #drusluákall. Þá útskýrði hann mál sitt frekar með mynd af texta þess efnis að lögregla ætti ekki að bíða með að safna gögnum, óháð því hvort þolandi í áfalli treysti sér til að kæra.
Ég vil að ríkisvaldið og <a href="https://twitter.com/logreglan">@logreglan</a> taki ábyrgð af þolendum við kæru kynferðisafbrota <a href="https://twitter.com/hashtag/druslu%C3%A1kall?src=hash">#drusluákall</a> <a href="http://t.co/5zZs4PKzit">pic.twitter.com/5zZs4PKzit</a>
Tíst Hjalta er eitt fjölmargra sem birst hafa í dag um breytingar tengdar kynferðisofbeldi sem tístarar vilja sjá í samfélaginu. Á Twitter er algengt að stofnanir og fyrirtæki séu tengd við færslur án þess að viðkomandi svari þeim en lögreglan svaraði færslu Hjalta.
„Það er sannarlega viðhorf, en það að ákveða sjálf/ur hvort mál sé kært er ekki síður réttindi sem þolendur meta,“ tísti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
<a href="https://twitter.com/whatthefuse">@whatthefuse</a> Það er sannarlega viðhorf, en það að ákveða sjálf/ur hvort mál sé kært er ekki síður réttindi sem þolendur meta.
Svaraði Hjalti því til að það þýddi ekki að það ætti ekki að vera hægt að rannsaka án kæru svo valið væri fyrir hendi síðar meir. Sagði lögreglan það sannarlega hægt og að það væri gert reglulega en þá vísaði Hjalti í persónulega reynslu sína af því að aðstoða vinkonu sína sem varð fyrir hópnauðgun.
„Ég kom upp á neyðarmóttöku með vinkonu minni um daginn. Lögreglan kom og sagði orðrétt: „Ég get ekkert gert nema þú viljir kæra.““
Sagði lögreglan öll mál misjöfn en að skýr heimild væri til að rannsaka brot án kæru.
„Án framburðar þolanda er hins vegar erfitt að byggja aðgerðir, enda verða aðgerðir lögreglu að vera byggðar á upplýsingum, sem t.d. fást hjá brotaþola.“
Hjalti svaraði því til að framburður í því tiltekna máli hefði verið til staðar en þolandinn hefði á því augnabliki ekki viljað kæra. „Er það nógu alvarlegt til að þið viljið byrja að rannsaka?“
Lögreglan svaraði um hæl. „Upphaf máls er alltaf matsatriði, s.s. hvort nægjanleg gögn séu til staðar. Stundum þarf líka að virða vilja brotaþola.“
Hjalti sagði ljóst að þolandinn vildi segja frá en lögreglumaðurinn hefði sagt að hann gæti ekkert gert án kæru. Spurði hann lögregluna á Twitter því næst hvort sá hefði einfaldlega ekki verið starfi sínu vaxinn.
„Við ræðum ekki einstök mál hér,“ svaraði lögreglan. „Eins og fram kemur er þetta mat sem er framkvæmt í hverju máli fyrir sig.“
Eftir þetta hélt Hjalti áfram að varpa fram spurningum sem lögreglan hefur ekki svarað.
<a href="https://twitter.com/logreglan">@logreglan</a> við þurfum ekkert að ræða einstaka mál, en ætliði ekki einu sinni að hvetja viðkomandi brotaþola til að leita til ykkar aftur?
Hægt er að lesa samtalið í heild sinni á Twitter með því að smella hér.
Lögreglan hefur nú tekið til við tístin á ný. Kveðst hún fylgja öllum nauðgunarmálum eftir til þess að tryggja að þolandinn hafi allar upplýsingar.
<a href="https://twitter.com/whatthefuse">@whatthefuse</a> Við fylgjum öllum slíkum málum eftir til þess að tryggja að brotaþoli hafi allar upplýsingar.