Fleiri gönguleiðir en bara Laugavegurinn

Strútsstígur, í Hólmsárbotnum
Strútsstígur, í Hólmsárbotnum Mynd/Útivist

Undanfarin ár hafa Íslendingar og erlendir ferðamenn í auknum mæli sótt í gönguferðir víðsvegar um landið og hefur samhliða því átt sér stað mikil uppbygging bæði varðandi skála og með að stika leiðir. Tvær leiðir bera höfuð og herðar yfir aðrar þegar kemur að aðsókn og virðist sem flestum detti í hug að ganga þær þegar kemur að því að velja gönguleiðir. Þetta eru Laugavegurinn frá Landmannalaugum í Þórsmörk og svo Fimmvörðuháls.

Laugavegurinn og Fimmvörðuháls fá mesta athygli

Það vekur athygli að þessar tvær leiðir fái svona gífurlega athygli á sama tíma og rætt er um að ferðamenn vilji sækja í víðerni og að fá að vera einir uppi á hálendi. Það er reyndar ekki furðulegt í ljósi þess að eftir því sem fleiri ganga leiðirnar er meira skrifað um þær og þær enda í framhaldinu hærra á leitarvélum á netinu þegar leitað er að gönguleiðum á Íslandi.

Undanfarið hafa verið uppi stöðugar raddir um nauðsyn þess að dreifa meira úr ferðamannastraumnum um landið, enda nóg af fallegum gönguleiðum sem hægt er að fara. Sérstaklega hefur þetta verið umtalað síðustu vikurnar með miður skemmtilegum fréttum um sóðaskap í náttúrunni.

Mbl.is ákvað að skoða nokkrar aðrar fjöldaga gönguleiðir sem eru í boði hér á landi og ræða við göngufólk sem þekkir vel til leiðanna til að segja frá þeim. Byrjað verður á leiðinni frá Sveinstindi um Skælinga og Strútsstíg í dag, en á næstu dögum verður sagt frá fleiri gönguleiðum. Um gönguleiðirnar í dag var rætt við Skúla H. Skúlason, framkvæmdastjóra Útivistar, en félagið á og rekur nokkra skála á leiðunum báðum og þá hefur Skúli gengið þær margoft.

Sveinstindur-Skælingar

Hér sjást báðar gönguleiðirnar og helstu skálar á leiðinni. Fyrri …
Hér sjást báðar gönguleiðirnar og helstu skálar á leiðinni. Fyrri leiðin hefst við Langasjó og endar við Hólaskjól, en þar hefst einmitt seinni leiðin, Strútsstígur, sem endar í Hvanngili. Frá Hvanngili er svo bæði hægt að ganga til norðurs í Landmannalaugar eða suðurs í Þórsmörk. Mynd/mbl.is

Leiðin er í heild þrír göngudagar og tvær nætur. Gengið er frá Sveinstindi við Langasjó meðfram Skaftá, um Skælinga og um Eldgjá áður en endað er í Hólaskjóli á Fjallabaki nyrðra. Gönguleiðin er um 38 kílómetrar í heildina, og má gera ráð fyrir rúmlega 500-600 metra hækkun hvern dag og er lækkunin svo örlítið meiri.

Keyrt er upp frá Skaftártungum frá hringvegi 1, en leiðin er aðeins ætluð jeppum. Rútur keyra um Fjallabak, en ekki eru reglulegar ferðir upp að Sveinstindum og því gæti verið erfitt fyrir fólk að komast þangað á eigin vegum hafi það ekki aðgang að jeppum. 

Gríðarlega gott útsýni þar sem sést til Öræfajökuls og Heklu

Fyrsta daginn er jafnan gengið frá norðurenda Langasjós og gengið á fjallið Sveinstind og svo niður í skálann sem er fyrir neðan fjallið. Dagleiðin er heldur stutt, eða um 6 kílómetrar, en hægt er að bæta við styttri gönguferðum í nágrenni skálans. Í góðu skyggni er hægt að sjá langar leiðir af Sveinstindi, allt frá Öræfajökli í austri að Heklu í vestri. Þá er gott útsýni yfir Langasjó, Fögrufjöll og nágrenni tindsins.

Á Sveinstindi.
Á Sveinstindi. Mynd/Hrönn Baldursdóttir

Annan daginn er gengið meðfram Skaftá í suðvestur átt og um Skælinga. Skúli segir að gangan sé í mjög þægilegu landslagi, en þarna sé mikið að sjá fyrir augað. Þannig beri landið allt mikil merki um eldsumbrot fyrri tíma. Gengið er um Hvanngil, Uxatindagljúfur og fram Skælinga áður en komið er í skálann í Stóragili. Kringum hann má finna miklar hraunmyndanir úr Skaftáreldum. Leiðin er í heild um 16 kílómetrar.

Komið í Skælinga.
Komið í Skælinga. Mynd/Vala Friðriksdóttir

Þriðja daginn er svo gengið að Eldgjá og ofan í gjánni og áleiðis í Hólaskjól og er leiðin álíka löng og önnur dagsleið, eða um 16 kílómetrar. Meðal þess sem má skoða á leiðinni er Ófærufoss og þá er Eldgjáin einstök ein og sér.

Gengið meðfram Skaftá.
Gengið meðfram Skaftá. Mynd/Útivist

Víðfeðmi og Eldgjá heilla mest

Skúli segir að Útivist hafi í kringum aldarmótin tekið skálana í gegn, en um er að ræða tvo gamla gangnamannaskála sem fengu upplyftingu. Segir hann að leiðin sé í dag vinsæl hjá Íslendingum, en einnig hafa nokkrar ferðaskrifstofur hafið að selja ferðir þessa leið. „Umferðin er þó mun minni en t.d. á Laugaveginum,“ segir Skúli og bætir við að mjög sjaldgæft sé að einn gönguhópur hitti annan. Aðspurður hvað honum finnist einkenna leiðina segir hann að um sé að ræða víðfeðmt landslag þar sem fólk geti verið alveg út af fyrir sig og þá sé hraunið og Eldgjá gífurlega fallegir staðir.

Strútsstígur

Fyrri leiðin endaði í hálendismiðstöðinni í Hólaskjóli, en það er einmitt staðurinn þar sem Strútsstígur hefst. Liggur hann vestur eftir Syðra fjallabaki og er þriggja daga ganga sem endar í Hvanngili, sem er á Laugaveginum. Rútuferðir eru bæði frá upphafsstað og endastað stígsins, en hann er í heild um 42 kílómetrar. Fyrir utan mikla náttúrufegurð er eitt helsta aðdráttarafl þessarar leiðar að hægt er að skella sér í bað í Strútslaug rétt áður en önnur dagsleið klárast.

Við Strútsskála.
Við Strútsskála. Mynd/Fanney Gunnarsdóttir

Rykið skolað af sér í Strútslaug

Fyrsti dagurinn er stutt ganga frá Hólaskjóli í skálann við Álftavötn, en það er gamall gangnamannaskáli sem var gerður upp rétt eftir aldamótin. Dagleiðin er stutt og þægileg, eða um 6-7 kílómetrar. Þaðan liggur svo leiðin áleiðis að Hólmsárbotnum og Strútslaug, en þar geta göngumenn skellt sér í bað og skolað af sér ferðarykið. Frá lauginni er svo um eins klukkustunda gangur að skálanum við fjallið Strút. Samtals er dagleiðin tæplega 20 kílómetrar og er áætlaður göngutími um 7 klukkustundir. Skúli segir að algengt sé að göngufólk taki einn auka dag í kringum Strút, enda sé þetta svæði perla til að ganga um. Meðal annars er hægt að fara upp á Torfajökul eða eftir Krókagili á Strút.

Strútsstígur, við Álftavötn.
Strútsstígur, við Álftavötn. Mynd/Ingvi Stígsson

Hægt að lengja leiðina eftir Hvanngil

Þriðja daginn er svo gengið vestur eftir Mælifellssandi og að skálanum í Hvanngili þar sem göngumenn eru komnir á Laugaveginn. Skúli segir að þennan dag taki við göngufólki stórbrotin sýn þar sem Mýrdalsjökullinn er á vinstri hönd og Mælifellssandurinn framundan.  Vilji göngumenn lengja leiðina enn frekar í stað þess að fara heim úr Hvanngili með rútu er svo hægt að fara annað hvort í Þórsmörk eða upp í Landmannalaugar eftir Laugaveginum. 

Þessi leið á það sammerkt með Sveinstindi og Skælingum, að sögn Skúla, að þarna er almennt hægt að ganga án þess að hitta aðra hópa og þá fari flestir frá Hólaskjóli í vesturátt. Hann segir þó líklegt að hitta fólk við Strút og nágrenni, enda svæðið með eindæmum fallegt og margir sem vilji kíkja þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert