Mbl.is ræddi í dag við þátttakendur í Druslugöngunni sem var haldin í miðborg Reykjavíkur í dag. Nær allir viðmælendur áttu það sammerkt að þekkja einhvern sem orðið hafði fyrir kynferðisofbeldi og Druslugangan og önnur nýleg vitundarvakning hafði hjálpað fórnarlömbunum að stíga fram.
Arnrún Berglljótardóttir segir helstu ástæðuna fyrir þátttöku hennar í göngunni sé það hvernig komið sé fram við fórnarlömbin. „Ég veit um marga sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og mér finnst hræðilegt hvernig komið er fram við þolendurna. Þess vegna styð ég þennan málstað.“
„Margar vinkonur mínar stigu fram í tengslum við Free The Nipple- átakið með sína eigin reynslu. Stelpur sem ég hafði ekki hugmynd um að hefðu orðið fyrir slíku ofbeldi. Þessi vitundarvakning hefur orðið til þess að það er viðurkenndara að stíga fram og málefnið er ekki tabú lengur. Í gamla daga var þetta algjört tabú og það var aldrei rætt um ofbeldi. Giftar konur þurftu að sætta sig við að eiginmaður þeirra fékk sínu framgengt eins og hann vildi.“
Hún segir ánægjulegt að sjá fjölda þátttakenda í göngunni. „Þetta er alveg geðveikur stuðningur, miklu fleiri en ég bjóst við. Ég sá gönguna í fyrra og það eru mun fleiri hérna í ár. Ég fór eiginlega bara að gráta þegar ég sá fjöldann, ég var svo stolt.“
Stelpa sem vildi ekki láta nafn síns getið mætti í gönguna með grímu fyrir andlitinu, skilti í höndunum og ritaðan texta á líkamanum. Að hennar sögn var þetta allt ádeila á orðræðuna um kynferðisofbeldi.
„Ég vildi gera ádeilu á hlutgervinguna. Sérstaklega samlíkinguna sem oft heyrist um að „maður skilji húsið sitt ekki eftir ólæst," því þá verður maður rændur. Við erum ekki að ræða um hús eða banka. Þetta snýst um líkama fólks. Það hvernig fólk klæðir sig á ekki að skipta neinu máli ef það er brotið gegn því.“
„Gríman er svo ádeila á staðhæfinguna sem oft heyrist um að „ljótar stelpur“ eigi að vera þakklátar ef þeim er nauðgað, því þá hafi einhver viljað sofa hjá þeim. Slík orðræða er algjört kjaftæði og ógeðsleg tilhugsun.“
Á skiltinu skrifaði hún „Almenningseign.“ Með því vildi hún vekja athygli á því að þótt stelpur klæði sig druslulega eða eru í viðkvæmu ástandi, svo sem vegna ölvunar, þá eiga þær líkama sinn ennþá sjálfar. „Í dag virðist það vera þannig að um leið og stelpa er druslulega klædd eða mjög drukkin þá fá allir aðrir að eiga þig. Þú færð ekki að ráða því hvar þú endar.“
„Ég er mjög ánægð með það hversu margar konur hafa stigið fram en á sama tíma er það mjög ógnvekjandi hversu margar þær eru. Það er eins og það sé orðið normið að það hafi verið brotið gegn þér,“ segir stelpan og bætir við að hún eigi margar vinkonur sem hafa stigið fram undanfarna mánuði sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. „Ég þekki margar sem hefur verið brotið gegn. Gróflega og oft.“
Vinirnir Viktoría Bergmann, Katrín Hermannsdóttir, Arnar Logi Oddsson og Birta Líf segjast öll þekkja einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. „Það eru einhverjir sem hafa stigið fram í kjölfar vitundarvakningarinnar sem hefur orðið í samfélaginu. Það eru þó líka einhverjir sem skammast sín ennþá og eru ekki tilbúnir til að opna sig,“ segir Viktoría.
„Þetta er svo mikil vitundarvakning. Maður sá um leið og umræðan fór af stað að maður þekkir fórnarlömb, fólk sem stendur manni nærri. Maður þekkir fleiri en maður heldur og það er auðvitað ekki í lagi.“
Þau segjast hafa mætt í Druslugönguna til að styðja fórnarlömbin og sjá aðra gera slíkt hið sama.
„Ég mæti til að skila skömminni sem liggur á þolendum yfir á gerendur,“ segir Árni Gunnar Eyþórsson.
„Það hefur verið mikil vakning í samfélaginu um þetta málefni og ég held að fólk sé komið með alveg upp í kok af því hvernig þetta hefur verið undanfarin ár og áratugi. Það er löngu kominn tími á breytingar.“
„Þetta verður bara stærra með hverju árinu. Fólk er er ekkert að fara að þegja yfir kynferðisofbeldi héðan í frá,“ segir Árni að lokum.