Sunnudag einn í júlí héldu feðginin Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, og Marta María Sæberg í ævintýralega dagsferð á vit vestfirskrar fortíðar. Þau flugu með Flugfélagi Íslands frá Reykjavík til Ísafjarðar að morgni og leituðu uppi þá staði sem nútíminn hefur enn ekki náð að hrófla við. Ferðin hófst í Ósvör, þar sem er gömul verbúð. Þaðan var haldið í rúmlega aldargamlan lystigarð, skyggnst inn í nær ósnert eyðibýli á Arnarnesi, kaffi drukkið á Þingeyri og hringnum síðan lokað á Ísafirði, þar sem kvöldverður var snæddur í Tjöruhúsinu. Að kvöldi var svo flogið heim. Ljósmyndarinn hafði myndavélina að sjálfsögðu meðferðis og opnar nú lesendum glugga til fortíðar.
Eftir lendingu á Ísafirði var strax haldið í átt að Bolungarvík og komið við í gömlu verbúðunum sem standa fyrir utan bæinn. Árni, sem hefur mikið ferðast um landið og undanfarið verið duglegur að kíkja með erlenda gesti um Suðurlandið, segir að hann hafi strax tekið eftir því að himinn og haf væri á milli ástandsins fyrir sunnan og á Vestfjörðum. Þannig væru þau að losna við mesta hluta af túrismanum sem er við vinsælustu staðina og við þjóðveg eitt fyrir sunnan. Sú skoðun hafi ekki breyst allan daginn og stundum hafi þau tvö haft viðkomustaðina alveg út af fyrir sig, sem Árni segir hafa verið einstaklega heillandi umhverfi.
Frá Bolungarvík var keyrt til baka og í gegnum göngin til Önundarfjarðar og áfram til Dýrafjarðar. Strax og komið var niður af Gemlufallsheiðinni var stefnan tekin út fjörðinn í átt að Núpi, en þar var lengi vel héraðsskóli. Nú er þar rekið hótel, en nálægt bænum er að finna skrúðgarðinn Skrúð, sem var byggður upp í byrjun síðustu aldar.
Árni hefur sjálfur sterkar taugar til Núps og svæðisins í kring, en hann var sjálfur um tíma nemandi við skólann. Þekkir hann því sögu staðarins vel, staðhætti og býr yfir nokkrum fróðleiksmolum.
Næst Núpi stendur húsið Hlíð, en þar er að finna menningarsafn þar sem ævi og starfi Sigtryggs Guðlaugssonar, prófasts og skólastjóra á staðnum, eru gerð góð skil. Safnið er reyndar heimili Sigtryggs og konu hans frá miðri síðustu öld. Sigtryggur var mikill athafnamaður, en hann stofnaði meðal annars garðinn Skrúð og átti frumkvæði að stofnun skólans, sem seinna varð að héraðsskólanum.
Áfram var haldið út fjörðinn, þar til vegurinn endaði, en þar kom í ljós eyðibýlið Arnarnes. Húsið lítur út eins og það hafi verið yfirgefið snögglega og er húsbúnaður enn á staðnum, þótt húsið sjálft sé í niðurníðslu.
Eins og sjá má af myndunum er margt enn á sínum stað, hvort sem um er að ræða bolla og diska, matarbauka eða stóla. Þá er Rafha eldavélin á sínum stað, en bæði pottur og panna eru á hellunum.
Eins og sjá má á myndunum sem fylgja gnæfir fjall yfir bænum og garðinum, en Árni segir að áður fyrr hafi það virkað sem einskonar veðurathugunarstöð fyrir heimamenn. Þannig hafi komið ákveðin hljóð frá fjallinu við vissar veðuraðstæður og þá vissu allir að það ætti ekki að róa, enda var það jafnan fyrirboði um slæmt veður.
Næsti áfangastaður er bærinn Þingeyri, en þegar keyrt er í gegnum bæinn blasir við gestum stórglæsilegt hús í miðjum bænum sem gengur undir nafninu Simbahöllin. Þar hefur framtakssamt fólk tekið í gegn gamla kaupmannsbúð og breytt í kaffihús, en þó látið gamlar innréttingar og andann halda sér. Þarna er kjörið tækifæri að stoppa og fá sér kaffi og köku, enda heilmikil keyrsla að baki og enn talsvert eftir.
Brunað er til baka til Ísafjarðar, en markmiðið er að kíkja á hið rómaða Tjöruhús áður en fljúga á til baka seinna um kvöldið. Gömlu húsunum á Ísafirði hefur verið haldið gífurlega vel við og segir Árni að það sé æðislegt að sjá hversu gamli tíminn varðveitist vel á Vestfjörðum. Mikið sé lagt upp úr varðveislu og viðhaldi og nú séu eldri hús mikil prýði og vinsælir áfangastaðir. Segir hann að á Ísafirði hafi þetta tekist sérlega vel upp, en einnig komi Þingeyri sterk inn.
Þessi gamla ásýnd á mörgum stöðum er þó ekki helsta aðdráttarafl staðarins, en Árni segir að fjöllin og náttúran á Vestfjörðum séu engu lík og enginn staður sé í raun eins og Vestfirðir. Árni var sjálfur lengi á varðskipum og sigldi reglulega um firðina og segist bera sterkar taugar til svæðisins. Það sem hann segir þó standa upp úr sinni reynslu sé þegar hann fór árið 1993 á kajak í hópi með fleirum og réri um firðina. Þá hafi aðal málið verið að fara snemma að sofa til að vakna aftur snemma um morguninn þar sem oftast var hægari átt og rólegra fyrri hluta dags. Minnist hann sérstaklega þess að hafa spegilsléttan sjó í kringum sig, horfa á fugla dugga stutt frá bátnum og kyrrðina í morgunsólinni. „Alsæla,“ eru einu orðin sem lýsa þessu að sögn Árna.
Eftir langan dag var snætt á Tjöruhúsinu áður en haldið var aftur upp í flugvél til baka til Reykjavíkur. Árni segir að besti mælikvarðinn á skemmtun og góða upplifun ferðarinnar hafi þó verið þegar hann áttaði sig á því að dóttir hans, sem er á unglingsaldri, hafði varla skoðað símann allan daginn, en slíkt er því miður að verða æ sjaldgæfara, bæði hjá fullorðnum sem og yngra fólki.