Hafði ekki skilað læknisvottorði

Talið er að hælisleitandinn hafi smitað konur af HIV.
Talið er að hælisleitandinn hafi smitað konur af HIV. Rósa Braga

Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, segir að heilbrigðisyfirvöld hafi ekki vitað af nígeríska hælisleitandanum, sem grunaður er um að hafa smitað konur af HIV, fyrr en nýverið. RÚV greindi frá þessu fyrr í dag.

„Við vitum ekki til þess að hann hafi skilað læknisvottorði fyrr en að þessu kom,“ segir Haraldur við mbl.is og vísar þar til þess þegar upp komst um HIV-smitið. „Allir sem sækja um dvalarleyfi, hælisleitendur þar á meðal, þurfa að skila vottorði,“ segir Haraldur og bætir við að það geti tekið sinn tíma að hafa vottorðið frágengið.

„Það eru ekki neinar nákvæmar dagsetningar á því hvenær menn eiga að vera komnir í skoðun og þess háttar,“ segir Haraldur enda hafa heilbrigðisyfirvöld ekki tök á því að taka fólk í læknisskoðun þegar í stað.

Samkvæmt frétt RÚV fyrir helgi kom maðurinn til Íslands í ágúst, fyrir tæpu ári síðan. 

Lögmaður mannsins segir að maðurinn haldi því fram við sig að hann hafi ekki vitað að hann væri smitaður af HIV-veirunni.

Aðspurður segir Haraldur að verið sé að rekja smitin og átta sig á þeim, en hann vildi ekki tjá sig um fjölda smitaðra eða um framvindu rannsóknarinnar. Hann gat ekki svarað til um hvort heimsóknir Íslendinga í HIV-próf séu fleiri eftir að málið kom upp, en vonar að fólk láti athuga sig ef það hefur grun um að vera smitað.

Heimildir Morgunblaðsins herma að nú þegar sé vitað um tvær konur sem hafi smitast af HIV eftir samneyti við manninn. 

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir.
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert