Ákærð fyrir smygl á 20 kg af dópi

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Aðalmeðferð yfir hollenskri konu á fimmtugsaldri og íslenskum karlmanni á þrítugsaldri hófst í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Hún er ákærð fyrir stórfelldan innflutning á amfetamíni, kókaíni og MDMA. Hann er ákærður fyrir að hafa tekið við efnunum hér á landi.

Hol­lensk­a konan kom ásamt dóttur sinni til landsins á föstudaginn langa með flugi frá Amster­dam og áttu pantað flug­f­ar til baka á mánu­dags­morg­ni. Alls voru þær mæðgur með samtals 9.053,55 g af amfetamíni að 69 til 70% styrkleika, 194,81 g af kókaíni að 64% styrkleika og 10.027,25 g af MDMA, að 78% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni, falin í tveimur ferðatöskum.

Í kjölfarið voru mæðgurnar úrskurðaðar í gæsluvarðhald og Íslendingurinn handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

 Í ákærunni segir að maðurinn hafi tekið á móti pakkningum og tösku frá hollensku konunni, við Hótel Frón að Laugavegi 22a, sem hann taldi að innihéldu öll framangreind ávana- og fíkniefni. Hann er jafnframt ákærður fyrir að hafa ætlað að koma þeim áleiðis til ótilgreindra aðila hér á landi til að hægt yrði að koma efnunum í söludreifingu, en lögreglan hafði þá áður lagt hald á efnin og komið fyrir gerviefni í þeirra stað.

Bæði neita þau sök í málinu en stúlkan er ekki ákærð í málinu. Samkvæmt frétt á Vísi er hún farin úr landi til föður síns.

Konan er ennþá hér á landi og mun sitja í gæsluvarðhaldi til 21. ágúst. Hún neitaði sök við þingfestingu í málinu 9. júní og hyggst skila skýrari afstöðu í greinargerð. Aðalmeðferð í málinu fer fram í lok september, samkvæmt frétt RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert