Lítill sem enginn gangur er í kjaraviðræðum starfsmanna álversins í Straumsvík við Rio Tinto Alcan.
Viðræðurnar eru strandaðar á kröfu álversins um aukna verktöku og mun því yfirvinnubann líklega hefjast 1. ágúst, en að öllu óbreyttu verður næsti samningafundur 4. ágúst hjá ríkissáttasemjara.
Gylfi Ingvarsson, ráðgjafi samninganefndar starfsmanna álversins í Straumsvík, segir að samningafundur hafi verið haldinn síðasta fimmtudag. Þar hafi verkalýðsfélagið lagt fram bókun þar sem slakað var á kröfum þess gegn því að álverið félli frá kröfu sinni um aukna verktöku. „Þeir þurftu ekki einu sinni að hugsa sig um. Það kom strax skýrt fram að þetta dygði ekki til að koma viðræðunum af stað. Það var forgangskrafa þeirra að áður en þeir ræddu önnur málefni þyrftu þeir að fá lausn á kröfu sinni um aukna verktöku,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.