„Við vökum yfir henni“

Katrín á köldum en fallegum degi við Önundarfjörð.
Katrín á köldum en fallegum degi við Önundarfjörð. Ljósmynd/ Styrktarsjóður Katrínar Bjarkar

Hulda María Guðjónsdóttir hefur ekki snert hlaupaskóna í sex ár en hún hefur ríka ástæðu til að draga þá fram að nýju fyrir Reykjavíkur maraþonið.

„Ég hef ekki hlaupið síðan áður en ég eignaðist börn. Ég er með einn þriggja mánaða svo ég er ekki í neinu formi. En að hlaupa tíu kílómetra er svo lítið mál miðað við það sem Katrín er búin að berjast við undanfarnar vikur. Það gefur manni rosalegan kraft,“ segir Hulda.

Katrín Björk, systir Huldu, fékk heilablæðingu í nóvember 2014 en hafði náð  ótrúlegum bata og hljóp jafnvel fimm kílómetra þann 12. júní. Tveimur dögum síðar, sunnudaginn 14. júní dundi hinsvegar annað áfall yfir. Katrín fékk aðra heilablæðingu og að þessu sinni mun stærri.

Frétt mbl.is: „Kippt úr hringiðu lífsins“

„Hún fór í aðgerð og er núna bara að berjast. Henni gengur vel en það er alveg svakalega löng ganga framundan. Þetta eru pínulítil hænuskref fram og tilbaka, oftast tvö fram og eitt aftur en þetta hefur verið meira í rétta átt.“

Hulda segir fjölskyldu Katrínar, unnusta hennar, Ásgeir Gísla­son og fjölskyldu hans standa þétt saman og styðja hvert annað og Katrínu í gegnum þá erfiðu vegferð sem framundan er.

„Við vökum yfir henni. Ég hef sjálf lítinn kost á að vera hjá henni þar sem ég bý úti á landi og er með tvö börn en við skiptumst á og það er alltaf einhver hjá henni.“

Framtíðin óráðin

Það eru til fleiri en ein leið til að vaka yfir ástvini í vanda. Ljóst er að Katrín á marga góða að því 17 hlauparar munu hlaupa fyrir hana í Reykjavíkur Maraþoninu. Sumir þeirra eru nánir henni, svo sem besta vinkonan Arnheiður Steinþórsdóttir og mágurinn Hlynur Kristinsson, en aðrir hafa einfaldlega heyrt sögu hennar og vilja leggja henni lið.

Hulda segir fjölskylduna hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá samfélaginu fyrir vestan vegna veikinda Katrínar. Vinafólk hennar hrinti af stað söfnun til að létta þeim leiðina að bata en Katrín, sem hafði hugsað sér að fara í lögfræði við HR í haust er eðli málsins samkvæmt frá vinnu í sumar.

Hulda segir alls óvíst hvort peningurinn fari t.d. í utanlandsferð fyrir Katrínu þegar hún hefur náð bata eða í að breyta fararskjóta og heimili foreldra hennar til að mæta breyttum þörfum. Það þurfi tíminn að leiða í ljós.

„Einhvern tíma þurfa mamma og pabbi að borga þessa reikninga sem eru að hrúgast upp. Þau eru hvorug í vinnu núna. Hvað svo sem það verður nákvæmlega sem peningurinn fer í kemur hann í góðar þarfir.“ 

Hér má sjá þá hlaupara sem hlaupa fyrir Styrktarsjóð Katrínar Bjarkar og hér er hægt að heita á Huldu Maríu. 

Einnig er hægt að styrkja sjóðinn í gegnum söfnunarreikning nr. 0515-14-410407 og kt. 470515-1710 og fylgjast má með Söfnunarsjóðnum á Facebook.

Systurnar Hulda María (t.v) Helga Rún og Katrín Björk (t.h) …
Systurnar Hulda María (t.v) Helga Rún og Katrín Björk (t.h) á jólunum í fyrra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert