„Gróft dæmi um utanvegaakstur“

Sjá má ljót sár í náttúrunni eftir athæfi mannsins.
Sjá má ljót sár í náttúrunni eftir athæfi mannsins. Ljósmynd/Landsvirkjun

René Biasone, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir það vera jafn alvarlegt að keyra utan vegar í grónu landi og þegar ekið er utan vegar í svörtum sandi. Hvort tveggja er lögbrot sem valdið getur alvarlegu tjóni á viðkvæmri náttúru.  

Í gær var greint frá því þegar tveir starfsmenn Landsvirkjunar urðu vitni að utanvegaakstri skammt frá Vatnsfellsvirkjun. Var þá karlmaður búinn að keyra jeppabifreið út af veginum og lék sér að því að spóla henni í hringi í svörtum sandi innan um viðkvæman gróður.

Athæfi mannsins, sem náðist á ljósmynd, skildi eftir sig áberandi sár.

„Svartur sandur er hluti af náttúru landsins og er oft eitt mesta aðdráttarafl ferðamanna sem vilja upplifa ósnortna náttúru,“ segir René í samtali við mbl.is. „Utanvegaakstur er ólöglegur og skiptir þá engu hvort ökutæki sé ekið í grónu landi eða á sandi. Þetta er einfaldlega bannað.“

René hefur litið á þá ljósmynd sem starfsmenn Landsvirkjunar tóku er þeir urðu vitni að utanvegaakstri síðastliðið mánudagskvöld. Aðspurður segir hann athæfi jeppamannsins vera dæmi um grófan akstur utan vegar.

„Mér finnst ljótt að sjá þetta. Þetta er gróft dæmi um utanvegaakstur og augljóst að maðurinn gerir þetta eingöngu sér til skemmtunar,“ segir René og bendir á að það sé algengur misskilningur að hjólför í sandi jafni sig á skömmum tíma. Íslenskur jarðvegur er eldfjallajarðvegur og því mjög laus í sér. Þar af leiðandi mynda hjól ökutækja auðveldlega djúp för í jarðveginn sem erfitt er að afmá. 

„Það er því miður ekki rétt að auðvelt sé að afmá hjólför í sandi. Við Kleifarvatn má til að mynda sjá mörg gömul för eftir ökutæki sem ekki hafa náð að jafna sig,“ segir hann og bætir við að fólk verði einnig að hafa það í huga að um leið og litið er fram hjá utanvegaakstri eykst hættan á frekari brotum. Þannig geta hjólför utan vega haft aðdráttarafl fyrir aðra vegfarendur og hvetja til frekari utanvegaaksturs. 

„Utanvegaakstur mun ekki minnka þegar umræðan fer alltaf að snúast um það hvort ekki sé í lagi að keyra utan vegar í sandi. Þá mun tilfellunum einfaldlega fjölga,“ segir hann.

Utanvegaakstur á torfæruhjólum er einnig vaxandi vandamál.
Utanvegaakstur á torfæruhjólum er einnig vaxandi vandamál. Rax / Ragnar Axelsson
Dæmi eru um utanvegaakstur á Heiðmerkursvæðinu.
Dæmi eru um utanvegaakstur á Heiðmerkursvæðinu. Ljósmynd/Orkuveita Reykjavíkur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert