Keppnisknapar halda í hestaferð

Aníta Margrét Aradóttir.
Aníta Margrét Aradóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Hestakonan Aníta Margrét Aradóttir sem í fyrrasumar tók þátt í Mongol Derby kappreiðinni í Mongólíu, sem jafnframt er sú hættulegasta í heimi, mun í fyrramálið leggja af stað í 6 daga hestaferð um Löngufjörur. Með henni í för verða alls 14 erlendir knapar sem einnig hafa tekið þátt í hinni hættulegu 1.000 kílómetra kappreið.

„Vegna þess hve lík löndin Ísland og Mongólía eru og einnig vegna þess að hestarnir eru skyldir ákvað ég að skipuleggja þessa hestaferð fyrir okkur,“ segir Aníta Margrét í samtali við mbl.is. „Af þessu tilefni koma 14 knapar til landsins og ætlum við að ríða um Löngufjörur í sex daga með rekstur.“

Aðspurð segir hún tilefnið vera að eitt ár er nú liðið frá kappreiðinni í Mongólíu. Knaparnir koma frá hinum ýmsu löndum, s.s. Bandaríkjunum, Ástralíu, Frakklandi, Kanada, Þýskalandi og Svíþjóð, og eru þeir teknir að tínast til landsins einn af öðrum. Þeir síðustu koma svo hingað til lands í fyrramálið.

Meðal þeirra knapa sem taka þátt í hestaferðinni er hin ástralska Sam Jones, sem vann Mongol Derby kappreiðina í fyrra, og sænski leikarinn Musse Hasselvall, en hann er einnig heimsmeistari í jiu jitsu.

„Það eru allir rosalega spenntir fyrir þessari ferð enda mjög hrifnir af Íslandi. Svo er hópurinn líka spenntur fyrir því að reka hrossin því það er ekki gert mjög víða,“ segir hún.

Sá hluti hópsins sem kominn er til landsins hittist í …
Sá hluti hópsins sem kominn er til landsins hittist í gær. Ljósmynd/Aníta Margrét
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert