Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, hefur sent bréf á viðbragðsaðila þar sem hún leggur til að þeir gefi fjölmiðlum engar upplýsingar um kynferðisbrot sem kunna að koma upp á Þjóðhátíð. Páley segir markmiðið að hlífa aðilum máls á meðan þeir ganga í gegnum erfitt ferli.
Bréfið var sent á læknaforstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, yfirmann sjúkraflutninga, yfirmann gæslunnar á Þjóðhátíð og neyðarmóttöku Landspítala. Þá var afrit sent á forsvarsmann áfallateymis hátíðarinnar og félagsþjónustu Vestmannaeyja, sem voru samráðsaðilar um ákvörðunina.
Í bréfinu kemur m.a. fram að lögregla muni ekki veita upplýsingar um kynferðisbrot til fjölmiðla þessa helgi, frekar en gert sé á öðrum tímum. Í samtali við mbl.is segir Páley tilefnið vera þá erfiðleika sem það skapar fyrir aðila máls að „standa upp“ eftir brot af þessu tagi á meðan það er á sama tíma í opinberri umræðu.
„Stundum höfum við lent í því að vera enn með menn í haldi þegar þetta er komið í blöðin og þolandinn er ennþá á neyðarmóttöku. Það er bara mjög þungbært fyrir fólk að lenda í þessu. Og ég hef þennan bakgrunn sem lögmaður til margra ára og réttargæslumaður, búin að koma að fjöldanum öllum af kynferðisbrotum, og þekki þetta með þolendurna; hversu erfitt það er að vera að reyna að tækla þetta sjálfur og talast á við áfallið með þessa umræðu í fjölmiðlum,“ segir Páley.
Hún segir nægan tíma síðar til að fjalla um mál, þegar ákærur hafa verið birtar eða þegar búið er að fella dóma.
Spurð að því hvort það varði ekki almannahagsmuni að upplýsa um kynferðisbrot á yfirstandandi hátíð segir Páley ekki telja að svo sé; ekki á meðan brotin eru nýskeð og enn í rannsókn. Það vekur athygli að í bréfinu hvetur hún aðila til að veita ekki upplýsingar um að brot hafi verið tilkynnt yfir höfuð og segir: „Besta svarið hvað ykkur varðar er „Við höfum enga heimild til að veita slíkar upplýsingar“.“
Þegar hún er spurð að því hvers vegna það sé ekki hægt að fara einhvern milliveg og gefa upp fjölda t.d. ítrekar hún að slíkar upplýsingar séu ekki gefnar á öðrum dögum ársins. Hún segir að eðli málsins samkvæmt fari ákveðinn bolti af stað þegar fyrsta frétt hefur verið birt og menn fari af stað að leita frekari upplýsinga. Hún segir hins vegar ljóst að lögregla myndi ekki fórna almannahagsmunum ef hætta væri á ferðum.
Annað sem vekur sérstaka athygli í bréfinu er setning sem virðist skot á fjölmiðla: „Ég hef vakið athygli á því að þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kynferðisbrot koma upp enda virðast þau vera það sem fjölmiðlar vilja helst fjalla um.“
Páley útskýrir ummæli sín þannig að þetta sé yfirleitt fyrsta spurningin sem lögð sé fram þegar fjölmiðlar hringja á lögreglustöðina um verslunarmannahelgina; hvort einhver kynferðisbrot hafi verið tilkynnt. Hún segir fjölmiðla vinna sína vinnu en hún sé að reyna að vinna sína og telji reynandi að létta undir með aðilum máls með því að gefa ekki þessar upplýsingar.
Hún segir vandamálið opinbera umræðu.
„Fjölmiðlar eru auðvitað bara að sinna sínu starfi, ég geri mér grein fyrir því. En opinber umræða á þessu stigi er hvorki að hjálpa þolandanum né gerandanum né fjölskyldum þeirra né rannsókn málsins. Þannig að ég sé ekki að fjölmiðlar þurfi að fá þessar upplýsingar nema á annan hátt; í tölfræðigögnum og niðurstöðum um hversu mörg brot eru framin á ári hverju og slíkt. Eins og alvanalegt er. En að vera að reyna að tengja þetta beint við þolendur og gerendur þegar þetta er nýskeð veldur þessum aðilum gríðarlegum erfiðleikum,“ segir Páley, og á þá við umræðuna sem fer af stað í kjölfarið.
Bréf lögreglustjóra:
Á fundi með viðbragðsaðilum þjóðhátíðar benti ég á mikilvægi þess að allir sem koma að hátíðinni haldi trúnað og virði þagnarskyldu sína. Flestir aðilar eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum en aðrir samkvæmt starfslýsingu sinni og eðli máls. Ég hef vakið athygli á því að þetta er sérstaklega mikilvægt þegar kynferðisbrot koma upp enda virðast þau vera það sem fjölmiðlar vilja helst fjalla um. Það er afar þungbært fyrir aðila kynferðisbrots að málið sé á forsíðum blaðanna á sama tíma og viðkomandi er að takast á við brot, byrja kæruferli og slíkt. Eins og ítrekað hefur komið fram í umræðunni eykur það á vanlíðan aðila og fjölskyldna þeirra að mál þeirra, jafn viðkvæm og þau eru, komi til opinberrar umræðu.
Ég legg því til að allir viðbragðsaðilar, allir gæslumenn, starfsmenn neyðarmóttöku, heilbrigðisstarfsmenn, sjúkraflutningamenn og allir þeir sem koma að þessum brotum og fá upplýsingar starfa sinna vegna gefi engar upplýsingar um þessi mál. Með engum upplýsingum á ég við að hvorki verði gefið upp hvort að það hafi komið upp brot eða ekki. Besta svarið hvað ykkur varðar er „Við höfum enga heimild til að veita slíkar upplýsingar“.
Ég hef ákveðið í samráði við áfallateymi þjóðhátíðar og félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar að lögreglan mun ekki veita upplýsingar um kynferðisbrot til fjölmiðla þessa helgi frekar en gert er á öðrum tímum. Það er engin lagaskylda á lögreglu að upplýsa um kærur sem berast og almenningur á ekki heldur heimtingu á slíkum upplýsingum. Ástæða þessa er að ítrekað hefur komið fram hversu þungbært það er fyrir aðila og þá einkum þolendur að þurfa að þola umræðu um viðkvæm mál sín skömmu eftir að þau henda og eðlilegt að þeim sé veitt svigrúm til að standa upp eftir brot og að þau fái frið til þess. Lögreglu finnst sjálfsagt að reyna að létta aðilum erfið spor í þessum málum og hefur ákveðið að gera það með þessum hætti. Von mín er einnig að þetta skapi meiri vinnufrið hjá lögreglu í þessum málaflokki. Kynferðisbrot fá fullt viðbragð lögreglu og fulla rannsókn eins og ætíð og meðferð þeirra vönduð, málin eru skráð eins og skylt er líkt og önnur sakamál og verða þannig hluti af tölfræði lögreglunnar. Þegar ákæra hefur verið birt eru mál orðin opinber með tilheyrandi vernd fyrir þolendur.
Ég skora því hér með á ykkur öll sem mögulega koma að þessum málum eða fáið um þau upplýsingar að brýna ykkar fólk á þagnarskyldunni og hvetja fólk til að segja hvorki af eða á og veita engar upplýsingar hvort sem að það koma upp kynferðisbrot á hátíðinni eða ekki. Þið getið alltaf vísað á lögreglu en auðvitað kann sú staða að koma upp að eitthvað verði að ræða við fjölmiðla en það er þá undantekning og aðeins lögreglu að koma slíkum upplýsingum á framfæri.
Virðingarfyllst
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri.