„Þetta ætti að gagnast öllum“

Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að það hafi verið ákvörðun lögreglu að krefjast gæsluvarðhalds yfir manni sem er grunaður um að hafa smitað konur af HIV. Það hafi verið gert á grundvelli hegningarlaga. Verkefni sóttvarnalæknis og heilbrigðisþjónustunnar sé fyrst og fremst að finna fólk sem er smitað og koma því í meðferð, rekja smit og stoppa það.

Eins og fram hefur komið staðfesti Hæstiréttur í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um gæsluvarðhald yfir manninum. Í kvöldfréttum RÚV kom fram að lögreglan teldi rökstuddan grun fyrir því að maðurinn hefði vitað að hann væri með HIV.

Haraldur segist í samtali við mbl.is ekki hafa fundið nein merki þess að maðurinn, sem er hælisleitandi hér á landi, hafi gengist undir læknisskoðun hér. „Við höfum ekki neinar upplýsingar um að hann hafi verið rannsakaður hér.“

Hælisleitendum sem koma hingað til lands er ekki gert að gangast undir læknisskoðun eða leggja fram læknisvottorð. Aðrar reglur gilda hins vegar um þá sem sækja um dvalarleyfi hér á landi. Umsækjendur um dvalarleyfi þurfa að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu þeirra til landsins, en skoðunin fer fram samkvæmt ákvæðum sóttvarnarlega.

Breyti verklaginu

Haraldur segir að munur sé gerður á hælisleitendum sem koma hingað til lands í boði stjórnvalda af til að mynda mannúðarástæðum eða pólitískum ástæðum og þeim sem vilja búa hér og starfa og sækja um dvalarleyfi.

Hann segist gjarnan vilja breyta þessu verklagi. „Við viljum að það sé tekið upp og skoðað. Við viljum sjá hvort við getum staðið betur að þessu og hvað hægt sé að gera til að svona gerist ekki. Það eru ólíkar forsendur sem liggja þarna að baki og þetta er tiltölulega flókið mál,” segir Haraldur.

Hann segir að embættið hafi ávallt litið svo á að það sé öllum til hagsbóta að gangast undir læknisskoðun. „Þessi læknisskoðun hefur í sjálfu sér ekkert með það að gera hvort menn dvelji hér eða ekki. En við viljum að fólk sem hefur einhverja sjúkdóma fái þá meðferð sem þarf og að við getum komið í veg fyrir að smitsjúkdómar breiðist út. Þetta ætti að gagnast öllum.”

Maðurinn þegar hann var leiddur fyrir héraðsdómara.
Maðurinn þegar hann var leiddur fyrir héraðsdómara. Pressphotos
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert