„Ég skil hvað hún er að gera. Hún er að koma ný inn og ætlar að taka vel á þessum málum, en er að fara í kolranga átt,“ segir Helga Lind Mar, einn aðstandanda Druslugöngunnar um ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum þess efnis að halda upplýsingum um möguleg kynferðisbrot á Þjóðhátíð frá fjölmiðlum.
Frétt mbl.is: Munu ekki upplýsa um kynferðisbrot
„Þetta er ekki það sem við erum að setja pressu á núna. Núna er mikilvægt að við áttum okkur á því að við verðum að taka á kynferðisafbrotamálum eins og öðrum ofbeldismálum. Þetta er ekki eitthvað sem þarf að þagga niður og á ekki að gera,“ segir Helga Lind.
Hún segir að um leið og að fólk fái þau skilaboð að það sé erfitt að tala um brot af þessu tagi, sem hún segir að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, geri með þessu, verði erfiðara að tala um þau.
„Hún býr til fyrir þolendur að þeir eigi eftir að eiga erfitt. Þetta er ekkert til þess að skammast sín fyrir og hún er að ýta undir þessa skömm, sem við gerum allt til að létta af þolendum.“ Bréf lögreglustjórans gangi því þvert gegn boðskap Druslugöngunnar.
„Það má ekki þagga þessi mál niður. Hún hefur ekki tjáð sig um að það eigi að þagga niður önnur ofbeldisbrot í Eyjum þessa helgina. Hún er algjörlega að fara á skjön við það sem við erum að boða,“ segir Helga Lind.
Í bréfinu segir Páley að hún hafi ráðfært sig við fagaðila áður en að hún sendi út bréfið, þar sem fram hafi komið að umfjöllun geti verið þolendum þungbær. Helga Lind segir að fjölmiðlaumfjöllun geti vissulega verið þungbær fyrir þolendur.
„Fjölmiðlaumfjöllun getur verið mjög erfið. Það að þolendur eigi að geta stigið fram og að við eigum að geta talað um þessi mál opinberlega, það er mikilvægara. Hún tekur hugsanlega þolendur og býr til aðstæður fyrir þá, en með því sendir hún skilaboð til allra þolenda á landinu,“ segir hún, skilabið sem væru að hennar mati frekar til þess fallin að gera fólki erfiðara um vik að tilkynna og kæra kynferðisbrot.
Hún segir Druslugönguna frekar kalla eftir meiri fjölmiðlaumfjöllun heldur en minni. „Það er alltaf þannig og er það sem við erum að kalla eftir og boða. Við þurfum að opna umræðuna. Alltaf frekar meiri umfjöllun heldur en minni.“
Helga Lind segist eftir sem áður skilja hvað Páley ætlar sér og segir fallegt að kalla eftir að þolendur fái svigrúm. „En það gerist ekki svona og ég myndi vilja að hún endurhugsaði þessa vernd sem hún er að reyna að skapa.“
Forsvarsmenn Druslugöngunnar hafa ekki sett sig í samband við Páley til að ræða þessi málefni við hana, en það gæti vel komið til greina. „Maður upplifir að lögreglan öll sé dálítið eftir á í þessum málum. Það sem við erum að kalla eftir er frekari þjálfun lögreglumanna sem eru að takast á við kynferðisbrot og komast í takt við umræðuna. Ég fagna því að Páley vilji taka á þessum málum, en hún þarf að endurhugsa hvernig hún ætlar að gera það,“ segir Helga Lind.