„Grunur leikur á að eitthvað sé að gerast hjá okkur í skrifstofuhluta kvennadeildar spítalans. Í vikunni höfum við tekið sýni og skoðað svæðið. Starfsmenn hafa kvartað og einhverjir hafa fært sig þannig að við athugum þetta,“ segir Aðalsteinn Pálsson, deildarstjóri fasteignadeildar Landspítalans, við mbl.is.
Starfsfólk Landspítala athugar hvort mygla hafi komið upp í skrifstofuhluta kvennadeildar spítalans. Starfsmenn hafa kvartað undan óþægindum og verið er að kanna hvort um myglu sé að ræða. „Við erum að skoða lagnir og yfirfara, hvort það sé raki út frá gluggum eða eitthvað slíkt. Þetta er því ekki komið lengra, eins og staðan er núna.“
Aðalsteinn er beðinn að útskýra yfir hverju starfsfólk kvartar og hvort myglan sé sýnileg. „Fólk finnur fyrir svipuðu eins og ofnæmiseinkennum eða öndunarfæraeinkennum og líður ekki nógu vel. Það er ekki beint neitt sýnilegt, þannig að við erum að skoða í þessum gömlu húsum okkar.“
Hann segir viðhald vegna bygginga spítalans mikið, enda er það 150.000 fermetra svæði. „Við erum í miklum framkvæmdum utanhúss, að laga og þétt hús. Skipta út gluggum og fara yfir þök. Það er verið að vinna á Landakoti, við gamla spítalann, í Fossvogi, í Grensás, Vífilstöðum og á Dalbraut. Það er því verið að vinna víða í því að þétta og laga hús.“