Kannast ekki við að hafa veitt undanþágu

Charlotte hefur kafað frá tíu ára aldri.
Charlotte hefur kafað frá tíu ára aldri. Ljósmynd/Peter Burns

Hinn 13 ára kafari Charlotte Burns hefur ekki fengið neina undanþágu fyrir köfun frá Þingvallaþjóðgarði og kannast enginn þar við að hafa veitt henni slíka, samkvæmt upplýsingum frá þjóðgarðinum.

Aldurstakmarkið er 17 ár þegar kemur að því að stunda áhugaköfun. Lög um köfun mæla fyrir um að Samgöngustofa hafi eftirlit með lögunum og gefi út köfunarskírteini. Hafa landverðir Þingvalla enga heimild til að veita undanþágur frá lögunum.

Í viðtali við stúlkuna, sem birtist í morgun, fullyrðir hún að íslenska köfunarfyrirtækið dive.is hafi sagt henni að landverðir á Þingvöllum hefðu veitt henni sérstaka undanþágu svo hún gæti kafað í Silfru.

Þegar blaðamaður hafði samband við dive.is gátu starfsmenn þess ekki gefið neinar útskýringar á fullyrðingum stúlkunnar.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Samgöngustofa hafið rannsókn á málinu í kjölfar fréttaflutnings af stúlkunni og er frekari viðbragða að vænta af hálfu stofnunarinnar.

Sjá fréttir mbl.is:

„Þetta verður ótrúlegt afrek“

13 ára fær að kafa í Silfru

Fallegt er um að litast í Silfru á Þingvöllum.
Fallegt er um að litast í Silfru á Þingvöllum. Ljósmynd/www.adventures.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert