Enn hallar á konur þegar tónlistarfólk sem kemur fram á kvöldskemmtunum Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum er athugað. Miðað við talningu mbl.is kemur 131 skemmtikraftur fram, 92 karlar og 39 konur.
Meirihluti kvennanna er í kór Landakirkju og Lúðrasveit Vestmannaeyja, eða 35 konur. Hlutföllin skekkjast því enn frekar ef kórinn og lúðrasveitin eru ekki talin með, 77 karlar og fjórar konur.
„Ég held að það séu fleiri konur en í fyrra. Það eru fullt af konum hérna að skemmta, á einn eða annan hátt,“ segir Birgir Guðjónsson, formaður þjóðhátíðarnefndar, við mbl.is. „Við erum með vinsælustu skemmtikrafta landsins hverju sinni og það hefur reynst okkur vel.“
Konur sem koma fram á kvöldskemmtunum eru því 29,8% skemmtikraftanna, sem er betra hlutfall en í fyrra en þá voru konur 24%. Þegar kórinn og lúðrasveitin eru tekin úr jöfnunni eru konur hins vegar ekki nema 4,9% skemmtikrafta og því ljóst að hátíðin er ennþá karlaveldi.
Birgir segir gesti Þjóðhátíðar marga og þeir vilji fá alla flóruna af íslenskri tónlist. „Það er víðtæk flóra hér í Eyjum og allir vilja fá sitt. Þjóðhátíð er náttúrulega ein stór fjölskylduskemmtun.“