Það mætti segja að breska skólastúlkan Charlotte Burns væri ávalt niðursokkin í sitt helsta áhugamál og kæmi varla upp til að anda en raunin er sú að hún er alls ekki sokkin. Charlotte er nefnilega með sérlega góða flothæfni og á ótal skírteini til að sanna það.
Frá tíu ára aldri hefur þessi kraftmikla þrettán ára stúlka eytt öllum sínum stundum á kafi í hvaða hafi, vatni eða á sem hún kemst í og fyrir ári síðan varð hún yngst kafara til að hljóta ungmeistaragráðu PADI, atvinnusamtaka köfunarkennara, (e. the Professional Association of Diving Instructors), aðeins tveimur dögum eftir tólf ára afmælið sitt.
Nú hyggst Charlotte bæta öðrum titli í safnið þar sem hún stefnir á að verða yngsta manneskjan til að kafa í Silfru á Þingvöllum.
Frétt mbl.is: Þrettán ára fær að kafa í Silfru
„Mér finnst það ótrúlegt – að geta snert tvo jarðskorpufleka á sama tíma vekur með manni lotningu,“ segir Charlotte um ævintýrið framundan. Hún komst á snoðir um Silfru í kafaratímariti og eftir að hafa kynnt sér hana betur á netinu var ekki aftur snúið.
„Pabbi minn talaði við dive.is sem sér um kafanir í Silfru og þau sögðu að ég þyrfti að vera minnst 18 ára til að kafa þar. Við höfðum samband við breska sendiráðið á Íslandi til að athuga hvort það gæti hjálpað og átta mánuðum síðar lét dive.is okkur vita að landverðirnir á Þingvöllum hefðu veitt mér sérstaka undanþágu til að kafa.“
Hún tekur sérstaklega fram hve þakklát hún sé dive.is en einnig öllum þeim sem einkaaðilum og fyrirtækjum sem hafa boðið henni aðstoð, svo sem Hótel Luna og bílaleigunni Iceland 4x4 sem leggja sitt á vogarskálarnar hér á landi.
Meðal undirbúnings Charlotte fyrir ævintýrið í Silfru má telja heimsókn hennar til kafarasveitar hafnarlögreglu San Diego í Kaliforníu sem bauð henni í sérfræðiköfunarþjálfun þar sem hún æfði sig m.a. í að leita að ósprungnum sprengjum í þröngum rýmum undir USS Midway flugvélarmóðurskipinu auk þess sem hún kafaði í vatni við frostmark í Scotlandi. Með æfingunum gat Charlotte sýnt fram á flothæfni sína sem og að hún geti staðist kuldann í Silfru.
Hún viðurkennir að hafa haft áhyggjur af því að yfirvöld myndu hafna beiðni hennar um undanþágu og segir það hafa verið mikinn létti þegar svarið barst.
„Mér líður eins og þetta verði ótrúlegt afrek - það er næstum óskiljanlegt. Ég veit að það er ekki venjulegt að kafa í Silfru á mínum aldri og ég vil sýna fólki að maður getur kafað hvar sem er. Ef ég get gert það sem þrettán ára stúlka frá Englandi getur hver sem er gert það.“
Charlotte minnist þess að hafa séð mynd uppi á vegg hjá bróður sínum sem sýndi hann, þá 14 ára gamlan, fá skírteini í hendurnar fyrir að vera yngsti kafarinn til að hljóta ungmeistaragráðu PADI. „Eftir því sem ég eltist fannst mér hann verða mér innblástur til að kafa. Ég vildi vera eins og bróður minn.“
Eins og áður kom fram skaut hún bróður sínum ref fyrir rass og fékk gráðuna sína aðeins 12 ára gömul en sem betur fer erfir hann það ekki við hana. „Ég held að hann sé mjög stoltur af mér. Við erum mjög náinn og hann veit hvaða þýðingu köfun hefur fyrir mig. Ég segir að köfun sé frekar ástríða en áhugamál fyrir mér. Mér finnst ég njóta forréttinda þegar ég sé eitthvað neðansjávar sem enginn í bátnum getur séð. Köfun gerir mér kleift að sjá neðansjávarheim sem ég myndi ekki sjá annars.“
Þegar blaðamaður spyr hvort hún verði aldrei hrædd segir Charlotte það fara eftir aðstæðum. „Þegar ég er að kafa í Silfru verð ég í blautbúning með andlitsgrímu og hettu svo mér verður vonandi nokkuð hlýtt. Ég er líka styrkt af fyrirtækjum sem hjálpa mér að klæðast öllum bestu græjunum og það veitir mér mikið öryggi.“
Charlotte er reglulega spurð út í ótta. Svarinu sem hún gefur vatnshrædda blaðamanninum er augljóslega ætlað að róa áhyggjufullt fullorðið fólk og því verður vart komist hjá því að velta fyrir sér hvort eitthvað hræði hana í raun.
„Ég sá könguló á baðherberginu í morgun,“ svarar hún hlæjandi. „Mér brá rosalega.“
Charlotte mun kafa tvisvar sinnum í Silfur í 40 mínútur í senn, fyrst þann 25. september og svo aftur þann 26. september. Henni til halds og trausts verður breski landkönnuðurinn Monty Halls sem er þekktastur fyrir BBC sjónvarpsþáttaröðina Great Excape. Með þeim í för verður einnig teymi heimildargerðamanna frá Coventry háskóla en til stendur að gera fræðsluefni um flekaskilin og ferð Charlotte fyrir skóla. Charlotte sér myndina sem tæki til að vekja áhuga ungs fólks á jarðfræði sem og á köfun.
„Ég vil taka meistaragráðu PADI þegar ég verð 18 ára, þá get ég unnið í köfunarverslunum og köfunarstöðum,“ segir Charlotte um framtíðaráætlanir sínar. Hún þykist viss um að hún muni velja sér starf innan köfunarbransans, hvort sem það verður sem kennari, köfunarlæknir eða jafnvel sem verkfræðingur sem hannar nýjar leiðir til að kafa.
Charlotte nýtir köfunina reglulega til að safna fé til góðgerðarmála. Hún hefur hlotið sérstaka þjálfun í ummönnun sjávarspendýra og stefnir að því að læra sérstaklega um köfun fyrir fólk með fatlanir. Þar að auki er hún sérstakur talsmaður PADI og tekur þátt í að kynna heimsbyggðina fyrir köfun. „Ég vil klárlega hjálpa fólki að kafa. Þetta snýst allt um vatnið fyrir mér.“
Í myndbandinu hér að neðan má sjá Charlotte við tökur fyrir heimildarmyndina þar sem henni var haldið niðri með lóðum. Það er óhætt að segja að þessi kjarnakona hafi taugar úr stáli. Hægt er að fylgjast með Charlotte á Facebook og á heimasíðu hennar.
Keeping calm under pressure making my film, relax....... :-) I had no choice, I couldn't move as I had heavy weights on me to keep me down :-)
Posted by Charlotte Burns on Monday, July 27, 2015