Brot á lögum ef 13 ára kafar í Silfru

Charlotte hefur stundað köfun frá tíu ára aldri.
Charlotte hefur stundað köfun frá tíu ára aldri. Ljósmynd/Peter Burns

Brjóta myndi í bága við lög ef ungi kafarinn Charlotte Burns myndi kafa ofan í gjána Silfru í Þingvallaþjóðgarði. Í lögum um köfun segir að sá sem stundi áhugaköfun skuli vera 17 ára eða eldri, auk þess sem viðkomandi þurfi að standast með fullnægjandi hætti heilbrigðiskröfur og menntunar- og hæfniskröfur.

Hvorki stúlkan né aðstandendur hennar eða ábyrgðarmenn hafa sett sig í samband við Samgöngustofu vegna áætlaðs köfunarleiðangurs, samkvæmt svari stofnunarinnar við fyrirspurn mbl.is.

Þar segir enn fremur: „Samgöngustofa hefur enga heimild samkvæmt lögum til að veita undanþágu frá aldursskilyrði laganna. Hvergi er kveðið á um undanþáguheimild í lögum eða reglugerðum sem varða köfun á Íslandi.“

Samgöngustofa telur þó ekki ástæðu til að rannsaka mál stúlkunnar frekar að sinni:

„Þar sem verið er að tala um hugmynd tiltekinna aðila sem ekki hefur verið framkvæmd og þ.a.l. hefur ekkert brot verið framið er ekki talin ástæða til að rannsaka málið frekar. Með vísan í fyrrgreindar reglur væri það brot á lögum ef 13 ára barn kafar í Silfru.“

Eins og fram hefur komið hyggst stúlkan kafa ásamt föruneyti ofan í gjána í september næstkomandi. Fullyrti hún í gær að íslenska köfunarfyrirtækið dive.is hefði sagt henni að landverðir þjóðgarðsins hefðu veitt henni undanþágu frá aldursskilyrði um áhugaköfun.

Enginn starfsmaður þjóðgarðsins kannast hins vegar við að hafa veitt slíka undanþágu samkvæmt heimildum mbl.is. Hafa land­verðir Þing­valla heldur enga heim­ild til að veita und­anþágur frá lög­un­um.

Þingvellir. Landverðir þjóðgarðsins hafa enga heimild til að veita undanþágu …
Þingvellir. Landverðir þjóðgarðsins hafa enga heimild til að veita undanþágu frá lögum, rétt eins og Samgöngustofa. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert