Hóta að beita Ísland refsiaðgerðum

Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Rússar munu jafnvel grípa til refsiaðgerða gagnvart sex ríkjum sem hafa lýst yfir stuðningi við refsiaðgerðir Evrópusambandsins gagnvart Rússum. Meðal þeirra er Ísland.

Talsmaður rússneskra stjórnvalda, Dmitrí Peskov, staðfestir þetta í samtali við Tass fréttastofuna í gær.

Auk Íslands eru það Svartfjallaland, Albanía, Noregur, Lichtenstein og Úkraína sem eiga hlut að máli. Þau hafa öll lýst því yfir að þau styðji áframhaldandi aðgerðir gagnvart Rússum.

Fyrr á þessu ári var tímabundið lokað á innflutning sex íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í Rússlandi og þriggja kjötframleiðenda.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði á þeim tíma að þessar aðgerðir hefðu strax haft áhrif á möguleika viðkomandi fyrirtækja á að selja afurðir til Rússlands. Rússland hafi lengi verið mikilvægur stórmarkaður.

Tæpur helmingur útfluttra makrílafurða árið 2013 fór til Rússlands svo nefnd séu dæmi af viðskiptahagsmunum ríkjanna tveggja ef til innflutningsbannsins kemur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert