Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur ekki tilefni til að Ísland dragi stuðning sinn við viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi til baka.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Pútín Rússlandsforseta, sagði í vikunni að svo gæti farið að stjórnvöld gripu til aðgerða gegn þeim ríkjum sem styðja refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna innlimunar Krímskaga og átakanna í Úkraínu. Tilefnið var yfirlýsing Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, um framlengingu aðgerða en þar var Ísland á lista yfir þátttökuríki.
Ljóst er að loki rússnesk stjórnvöld fyrir innflutning íslenskra fiskafurða verður skaðinn mikill, bæði fyrir íslensk og rússnesk fyrirtæki.
Ísland hefur ávallt stutt viðskiptaþvinganirnar. „Ísland tók þá ákvörðun strax snemma á síðasta ári að taka þátt í þeim aðgerðum sem bæði samstarfsríki okkar á evrópska efnahagssvæðinu og í Norður-Ameríku hafa gripið til vegna innlimunar Krímskaga og afskipta Rússa af málefnum Úkraínu,“ sagði Birgir.
Forsendur hefðu ekki breyst þannig að tilefni væri til að endurskoða þá ákvörðun.
Utanríkismálanefnd Alþingis mun funda á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku til að ræða mögulegar viðskiptaþvinganir Rússa gegn Íslendingum.
Fréttir mbl.is:
Hóta að beita Ísland refsiaðgerðum
Eigum ekki í prívat útistöðum við Rússa