Sundmaðurinn var íslenskur ferðamaður

Maðurinn syndir i land eftir að Valur benti honum á …
Maðurinn syndir i land eftir að Valur benti honum á hætturnar við að vera í lóninu.

Það er ekki algengt að ferðamenn klifri upp á ísjaka eða syndi í Jökulsárlóni, en það kemur þó fyrir. Athæfi eins og mbl.is sagði frá fyrr í dag er stórhættulegt og öll hreyfingin á ísjökunum gerir það að verkum að auðvelt er að verða innlyksa milli jaka eða kremjast milli þeirra. Þetta segir Valur Pálsson, skipstjóri á einum af slöngubátum Jökulsárslóns ehf. sem gerir út ferðir á lónið, en Valur kom að ferðamanninum í gær sem hafði synt í lóninu og klifrað upp á ísjaka.

Íslenskur ferðamaður

Valur segist hafa verið látinn vita af athæfinu þegar hann var á leið í land. Þegar hann kom á staðinn var eldri maðurinn kominn upp á jaka nokkuð frá landi, við aðalútsýnisstaðinn. Valur byrjaði á að kalla til mannsins á ensku að sér þætti vænt um að hann reyndi að drepa sig ekki á þessu, en hefði verið svarað um hæl á íslensku. Maðurinn, sem Valur taldi vera á fimmtugsaldri, tók vel í bón hans um að koma í land, en ákvað að taka sundsprettinn til baka.

„Þetta er stórhættulegt, aðeins fimm mínútum seinna var flóðið byrjað að hreyfa ísinn sem sogaðist þá neðar í lónið og rekst á annan ís. Það er allt á hreyfingu,“ segir Valur um hættur þess að synda í lóninu. Ítrekar hann fyrir fólki að gera þetta ekki og bendir á að þegar bátar frá fyrirtækinu sigli um lónið haldi þeir sig í góðri fjarlægð frá ísnum, þar sem hann brotni reglulega og snúist. Segir hann það einmitt sérstaklega varasamt að vera ofan á ísjaka þegar slíkt gerist.

Getur sett starfsfólkið í hættu

Valur segir að starfsfólk við lónið reyni alltaf að bregðast strax við þegar það sjái athæfi sem þetta, en það vilji þó komast hjá svona málum. „Við getum aðstoðað, en að sama skapi erum við að setja okkur í hættu,“ segir hann og bendir á að ef siglt sé upp að ísjökunum séu alltaf líkur á að jakarnir snúist og skelli á bátunum. Þá sé alltaf áhætta hvort þau komist til baka þegar verið sé að sigla milli jaka sem eru þröngt saman, en slíkt getur kramið bátana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert