Winter Bay lagt af stað norðausturleiðina

Winter Bay fer um Norður-Íshaf á leiðinni til Japans. Hér …
Winter Bay fer um Norður-Íshaf á leiðinni til Japans. Hér lætur skipið úr höfn í Hafnarfirði í júní.

Flutningaskipið Winter Bay sem hlaðið er um 1.700 tonnum af frosnu hvalkjöti frá Íslandi er lagt af stað frá Tromsö Noregi, en skipið hélt af stað á föstudaginn. Leiðinni er heitið norður fyrir Rússland, svokallaða norðausturleið, en hafís getur tálmað för skipa sem reyna að fara þessa leið og því líklegt að ísbrjótur verði með í för. Það er fréttavefur Skessuhorns sem greindi fyrst frá málinu.

Winter Bay lagði af stað frá Hafnarfirði í byrjun júní og hélt til Noregs. Hafði það legið við bryggju í sex vikur áður en það fór frá höfn á föstudaginn. Gangi áform um siglingu norður fyrir Rússland eftir styttir það leiðina sem skipið þarf að sigla um 14.800 kílómetra, en áður þurfti Winter Bay að sigla suður fyrir Góðravonarhöfða þar sem.

Andstæðingar hvalveiða hafa ítrekað reynt að hafa áhrif á flutninga skipsins og báðu þau meðal annars norsk yfirvöld um að kyrrsetja skipið, þar sem það væri að flytja ólöglegan farm. Ekki var hlustað á það.

Á vef Skessuhorns segir að gangi siglingin eftir verði þetta söguleg stund og marki kaflaskil í sögu farmsiglinga á norðurslóðum og opni nýja möguleika til og frá Austurlöndum fjær, bæði fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir. Væri þetta í fyrsta skipti sem siglt væri með afurðir frá Íslandi þessa leið.

Hægt er að fylgjast með ferðum Winter Bay á heimasíðunni Marine traffic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert