Einbeittur brotavilji strokukópsins

Strokukópurinn er aðeins um tveggja mánaða gamall og vegur um …
Strokukópurinn er aðeins um tveggja mánaða gamall og vegur um 30 kíló. Hann náði að kjagast úr Húsdýragarðinum yfir á tjaldsvæðið í Laugardal. Hér er mynd af svipað gömlum kópi sem einnig ólst upp í garðinum. Ómar Óskarsson

Það má segja að strokukópurinn sem kom við á tjaldsvæðinu í Laugardal hafi sýnt fádæma brotavilja, en um leið miklar gáfur. Hann fann glufu þar sem aðrir selir hafa hingað til ekki fundið útgönguleið frá selalauginni í Húsdýragarðinum og þá fann hann einnig litla glufu undir girðinguna í kringum garðinn. Þetta segir Hilmar Össurarson,  dýrahirðir hjá garðinum, sem tók á móti kópnum þegar lögreglan skilaði honum heim til sín í morgun.

Hilmar segir að stórir steinar séu við selalaugina og þar hafi kópurinn fundið einhverja smáglufu og troðið sér í gegn á ótrúlegan hátt. Hann útilokar að einhver hafi komið inn og rænt kópnum og sleppt honum stuttu síðar.

Einbeittur brotavilji

Eftir að hafa komist út fyrir laugarsvæðið þurfti kópurinn líka að finna leið út úr garðinum og segir Hilmar líklegast að hann hafi skriðið undir girðinguna, sem þó á að vera nokkuð vel dýraheld. Kópurinn skreið svo tæplega kílómetra í heildina áður en hann endaði á tjaldsvæðinu í Laugardal

Segir Hilmar að því sé klárlega um einbeittan brotavilja að ræða hjá kópnum, þótt hann hafi greinilega þurft að nota gáfurnar vel til að finna leiðina út.

Engin einangrun fyrir strokukópinn

Auknar gætur verða hafðar á kópnum næstu daga að sögn Hilmars og segir hann ólíklegt að hann verði til sýnis næstu daga. Hann segir þó hress í bragði að ekki sé um neina einangrunarvist að ræða.

Þrátt fyrir viðburðaríka nótt og baráttu við lagana verði er kópurinn í fullu fjöri og segir Hilmar að hann geti skriðið langar leiðir á þægilegu undirlagi eins og um var að ræða. Bendir hann á að selir skríði jafnan á stórgrýti og yfir hrjóstrugt landsvæði og því hafi grasið í Laugardalnum ekki verið mikil hindrun fyrir hann.

Ekki algengt að dýr sleppi

Aðspurður hvort algengt sé að dýr sleppi úr garðinum segir Hilmar að slíkt sé mjög óvanalegt. Þannig muni hann aðeins eftir því að kindur eða kýr hafi náð að sleppa, en alltaf komist mjög stutt. „Við reynum að hafa þetta þannig að svona gerist ekki,“ segir hann.

Kom í lögreglufylgd

Hilmar fékk sjálfur tilkynningu um flóttann þegar hann var á leið í vinnuna klukkan sjö í morgun. Tók hann því á móti lögreglumönnunum þegar strokukópnum var skilað inn aftur. Segir hann að það hafi verið nokkuð óvanaleg sjón að sjá dýrin koma inn í lögreglufylgd, en lögreglumennirnir hafi einnig haft á orði að þetta væri í fyrsta skiptið sem þeir kæmu að viðlíka verkefni.

Frétt mbl.is: Selur á tjaldstæðinu í Laugardal

Frétt mbl.is: Loðinn feitur og kjagandi um

Mynd sem starfsmaður tjaldsvæðisins náði af kópnum.
Mynd sem starfsmaður tjaldsvæðisins náði af kópnum. Mynd/Leah Yeung
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert