Heiða Kristín hætt hjá 365

Heiða Kristín Helgadóttir.
Heiða Kristín Helgadóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Heiða Kristín Helgadóttir mun ekki starfa áfram hjá 365 en samningur hennar við fyrirtækið rann út í júní. Heiða Kristín stýrði vikulega þættinum Umræðunni á Stöð 2 en hann hóf göngu sína í apríl og fjallaði um stjórnmál. Kjarninn greindi frá þessu fyrr í dag. 

Að sögn Heiðu Kristínar var það sameiginleg ákvörðun hennar og stjórnar 365 að endurnýja ekki samning hennar við fyrirtækið sem var gerður til sex mánaða í janúar. Heiða Kristín segist í samtali við mbl.is ganga sátt frá borði. „Ég er mjög sátt við mín störf og átti alveg gríðarlega ánægjulegt samstarf við Kolbein Óttarsson Proppé og Fanneyju Birnu Jónsdóttur,“ segir Heiða Kristín en Kolbeinn og Fanney Birna sátu í ritstjórn þáttarins ásamt Heiðu Kristínu og voru jafnframt vikulegir gestir í Umræðunni. 

Í desember á síðasta ári greindi Heiða Kristín frá því að hún hefði  tekið ákvörðun um að láta af stjórn­ar­for­mennsku í Bjartri framtíð en hún var stjórnarformaður og framkvæmdarstjóri flokksins. Heiða Kristín er varamaður Bjartar Ólafsdóttur, þingkonu Bjartar framtíðar sem er nú í fæðingarorlofi.

Aðspurð hvort hún ætli sér að setjast á Alþingi í haust segist Heiða Kristín efast um það. „Ég sé það ekki fyrir mér að óbreyttu. Forysta Bjartar framtíðar þarf að horfa á stöðuna eins og hún er og gera eitthvað í henni,“ segir hún en samkvæmt nýrri könnun sem MMR kynnti í dag mældist fylgi Bjartrar framtíðar 4,4%, borið sam­an við 5,6% í síðustu könn­un. „Flokkurinn sem slíkur þarf að taka ábyrgð á því hvernig staðan er. Þetta er ekki spurning um að einhveri skilji mann ekki heldur snýst þetta um hvernig forystan kemur frá sér upplýsingum og til hvaða eyrna maður er að ná til eða ekki ná til,“ segir Heiða Kristín.

Aðspurð um næstu skref segist Heiða Kristín vera að vinna að nokkrum öðrum verkefnum en hún situr meðal annars í stjórn góðgerðarsjóðsins Best Peace Solution. „Það eru allskonar nýir hlutir sem ég er að sýsla við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert