Það hefur vakið athygli á hýra Íslandi að samkvæmt dagskrárriti Hinsegin daga styðja ekki allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hátíðarhöldin. Eða hvað? Við nánari athugun kemur í ljós að mismargir ráðherrar hafa fengið nafn sitt skráð í dagskrárritið hverju sinni, en það þýðir ekki að aðrir séu ekki glaðir með bæði svona og hinsegin.
Nafnabirtingin helgast af fjárhagslegum stuðningi ráðherra við Hinsegin daga, en aðstandendur hátíðarinnar segja ekki síður um að ræða mikilvægan móralskan stuðning.
„Við höfum sent öllum ráðherrum bréf þar sem við kynnum svona heildarkonseptið á bakvið hátíðina, sem þeim er svo sem öllum löngu kunnugt. En við förum aðeins yfir það og okkar hlutverk og markmið og óskum eftir stuðningi þessara ráðherra, sem eru þá í raun að veita úr sínum sjóð,“ segir Gunnlaugur Bragi, gjaldkeri Hinsegin daga.
Ráðherrarnir sem styðja hátíðina í ár samkvæmt dagskrárritinu eru Bjarni Benediktson fjármálaráðherra, Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Illugi Gunnarsson mennta- og mennningarmálaráðherra bættist í hópinn eftir að dagskrárritið fór í prentun.
„Ég get alveg fullyrt að þetta hefur ekkert með það að gera að hinir styðja ekki hátíðina sem slíka og markmið hennar,“ segir Gunnlaugur um stuðning ráðherranna og tekur undir með Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange, formanni Hinsegin daga, að þarna spili líklega inn í bæði hvort málaflokkurinn falli undir ráðherra og persónan sem situr í embættinu. Þá kunni ráðherrarnir að hafa sett ákveðnar úthlutunarreglur varðandi sjóðina.
Reykjavíkurborg er stærsti styrktaraðili Hinsegin daga, sem einnig njóta stuðnings fjölda fyrirtækja. Að sögn Gunnlaugs hefur styrkjunum frá ráðherrunum verið varið í útgáfu dagskrárritsins og að efla erlent samstarf. Hann segir stuðning þeirra þó ekki síður hafa táknrænt gildi.
„Þetta er stuðningur sem er okkur mjög mikilvægur og það vekur athygli erlendis að borgin er okkar stærsti styrktaraðili og að vera með ráðherrana með okkur,“ segir hann. „Þetta eru lægri upphæðir sem þeir styrkja okkur um en þær skipta okkur miklu máli uppá þennan móralska stuðning opinberra aðila. Að mega setja nöfn þeirra á hátíðina.“